Erla Björnsdóttir er fædd árið 1982. Hún lauk BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og lagði í kjölfarið stund á framhaldsnám í klínískri sálfræði við Háskólann í Árósum og lauk þaðan meistaraprófi árið 2009. Erla hóf doktorsnám við læknadeild Háskóla Íslands árið 2010 og mun verja doktorsritgerð sína síðar á þessu ári. Erla er löggiltur sálfræðingur á Íslandi frá árinu 2009 og starfar sem sálfræðingur hjá Sálfræðiráðgjöfinni þar sem hún sinnir greiningu og meðhöndlun svefnvandamála.
Erla stundar rannsóknir á langvarandi svefnleysi og kæfisvefni en doktorsverkefni hennar fjallar um svefnleysi, geðræna líðan og lífsgæði hjá sjúklingum með kæfisvefn. Að auki er Erla stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns þar sem boðið er upp á hugræna atferlismeðferð við svefnleysi í gegnum Internetið. Erla vinnur nú ásamt samstarfsfélögum sínum hjá Betri svefni að opnun netmeðferðar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Erla hefur einnig starfað við stundakennslu við Háskóla Íslands ásamt því að handleiða nemendur í starfsnámi og lokaverkefnum. Erla hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um svefn, svefnvandamál og úrlausnir þeirra.
Erla er gift Hálfdani Steinþórssyni viðskiptafræðingi og saman eiga þau fjóra syni.