Í heiðrunarnefnd voru Bryndís Hlöðversdóttir starfsmannastjóri, Guðmundur Þorgeirsson prófessor, Hildur Helgadóttir verkefnastjóri og Jón Hilmar Friðriksson framkvæmdastjóri. Þórleif Drífa Jónsdóttir verkefnastjóri var starfsmaður nefndarinnar.
Ágústa Björg Kristjánsdóttir, félagsliði á endurhæfingadeild geðsviðs
Ágústa hefur unnið ötullega að stofnun Bataskólans á Kleppi. Hún hefur unnið frábært og óeigingjarnt starf af dugnaði og heilindum og vinnur í anda gilda og markmiða Landspítala.
Anna Edda Ásgeirsdóttir, næringarráðgjafi á næringastofu
Anna Edda er einn af okkar fyrstu næringarráðgjöfum, sú fyrsta til að vinna með börnum með sykursýki, hefur veitt ráðgjöf um meðferð barna með efnaskiptasjúkdóminn PKU og er einnig sérfræðingur í næringu aldraðra. Frumkvöðull í sínu fagi!
Arna Rut Ragnarsdóttir, matráðsmaður í matsal á Hringbraut
Arna er einstaklega lipur, vinnufús og þægileg í samskiptum við þá sem koma í matsalinn. Hefur góða yfirsýn og mikla þjónustulund og leggur sig eftir því að þekkja nöfn viðskiptavina matsala. Ómetanlegt „andlit“ eldhússins!
Braghildur Sif Matthíasdóttir, heilbrigðisritari á miðstöð um sjúkraskrárritun
Braghildur ber mikla umhyggju fyrir starfi sínu, vinnustaðnum og samstarfsmönnum og hefur öryggi sjúklinga ætíð að leiðarljósi. Er óhrædd við að tileinka sér nýja hluti og stuðla að framþróun fagsins. 100% starfsmaður.
Elísabet Ólafsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku kvennadeildar
Elísabet er ómetanlegur hluti af bráðamóttökuteymi kvennadeildar. Hún heldur uppi góðum starfsanda, lætur hlutina ganga og tekur vel á móti nýjum starfsmönnum og nemum.
Guðný Sigríður Guðlaugsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku kvennadeildar
Guðný er oft nefnd í sömu andrá og Elísabet enda eru þær í huga margra órjúfanlegt teymi. Guðný er frábær samstarfsmaður, létt í lund, reynslubolti sem öllum þykir gott að leita til.
Guðbjörg Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur á göngudeild hjartabilunar
Guðbjörg er frábær hjúkrunarfræðingur sem sinnir starfi sínu af alúð, fagmennsku og ástríðu. Hún stýrir deild sem sinnir mjög veikum sjúklingum, starf hennar hefur fært þjónustuna til sjúklinga og fækkað bráðainnlögnum.
Jón Jóhannes Jónsson, yfirlæknir á erfða- og sameindalæknisfræðideild
Jón Jóhannes er vakinn og sofinn yfir starfseminni og leitar ávallt leiða til að bæta hana og færa til besta vegar. Hann sinnir sjúklingum sínum af alúð og er fær vísindamaður.
Kristján Þór Valdimarsson, tæknifræðingur á innkaupadeild
Kristján er sá sem bindur innkaupadeild Landspítalans saman, er sá sem allir leita til og alltaf tilbúinn að aðstoða og veita góð ráð. Styður öryggi og framþróun í allri sinni vinnu, fagmaður fram í fingurgóma.
Óskar Þór Jóhannsson, sérfræðilæknir á krabbameinsdeild
Óskar sinnir sjúklingum sínum af alúð og gefur þeim allan sinn tíma, er óþreytandi við að leita sér nýrrar þekkingar og fylgjast með í sínu fagi. Fyrsta flokks læknir og vísindamaður!
Sigrún Knútsdóttir, sjúkraþjálfari á Grensásdeild
Sigrún hefur starfað við sjúkraþjálfun í yfir 40 ár, til fjölda ára sem yfirsjúkraþjálfari Grensásdeildar en einnig haft umsjón með fagþróun sjúkraþjálfunar og endurhæfingu mænuskaddaðra þar sem hún hefur verið leiðandi í þekkingarþróun.
Þórunn Agnes Einarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á skurðstofu kvennadeildar
Þórunn hefur tekið að sér að kenna nýju starfsfólki og nemum sem koma á deildina og nálgast það verkefni af þolinmæði og heilhug. Einstakur kennari að mati margra nema.