Ýmus ehf. hefur fært vökudeild Barnaspítala Hringsins að gjöf fimm brjóstadælur og voru þær afhentar 12. mars 2014. Dælurnar eru af Medela Symphony gerð og eru hannaðar til mikillar notkunar á sjúkrahúsum. Mæður fyrirbura og veikra nýbura þurfa oft að dvelja langtímum saman á deildinni með veikum börnum sínum og því er þeim nauðsynlegt að geta mjólkað sig til að viðhalda mjólkurmyndun og til að næra barnið. Þessar fimm viðbótar brjóstadælur tryggja aukið aðgengi að dælum við rúmbeð barns og draga úr smithættu þar sem brjóstadælur eru nú við flest rúmbeð á deildinni. Andvirði þessa höfðinglega framlags til vökudeildarinnar er um 1,5 milljónir króna. Þetta er því stór gjöf frá litlu fyrirtæki sem hefur haft það að markmiði undanfarin ár að þjónusta mæður fyrir- og nýbura með bestu fáanlegu vörum.
Á myndinni eru Frans Páll Sigurðsson og Arnheiður Sigurðardóttir frá Ýmus auk starfsfólks vökudeildar við afhendingu gjafarinnar.