Töluverður hópur manna úr ýmsum stéttum hefur að undanförnu unnið að stofnun þessara landssamtaka sem hafa þann tilgang að vinna að nýbyggingu og endurnýjun Landspítala þannig að húsakostur og umhverfi sjúklinga og aðstaða starfsfólks spítalans þjóni nútíma þörfum. Markmið félagsins er að afla stuðnings meðal almennings og stjórnvalda við nauðsynlegar úrbætur á húsakosti spítalans þannig að þjóðin sé upplýst um þarfir fyrir aðstöðu til þjónustu á Landspítala, hvaða áætlanir liggi fyrir um endurnýjun og viðbætur við húsnæði spítalans og að fyrir liggi valkostir í fjármögn og framkvæmd verkefnsins. Félagið er öllum opið. Vel á annað hundrað manns gerðust stofnfélagar í Spítalanum okkar á stofnfundinum.
Auk Önnu Stefánsdóttur eru eftirtalin í nýkjörinni stjórn Spítalans okkar: Anna Elísabet Ólafsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst, Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála og fasteignareksturs í Háskólanum í Reykjavík, Garðar Garðarsson hæstaréttarlögmaður, Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt og meistaranemi við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Bjarney Harðardóttir, rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri markaðsmála og viðskiptaþróunar hjá Sjóklæðagerðinni 66 gráðum norður og Gunnlaug Ottesen, stærðfræðingur og yfirmaður upplýsingatæknimála hjá Marel.
Fundarstjóri á stofnfundinum var Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari og fyrrverandi forstjóri Landspítala. Anna Stefánsdóttir gerði grein fyrir aðdraganda að stofnun samtakanna og Jóhannes M. Gunnarsson, læknisfræðilegur verkefnisstjóri í undirbúningi vegna nýbygginga á Landspítala, lýsti stöðu undirbúnings framkvæmda við endurnýjun húsnæðis Landspítala og brýnum þörfum á því verkefni meðal annars vegna fjölgunar aldraðra á allra næstu árum. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, flutti ávarp. Drög að stofnskrá Spítalans okkar voru samþykkt með lófaklappi.