Starfsfólk Verzlunarskólans og skólinn hafa lagt 140 þúsund krónur í söfnunina til kaupa á aðgerðarþjarka (róbót) fyrir Landspítala. Þeir sem vildu vera með í söfnuninni lögðu sitt fram og skólinn tvöfaldaði upphæðina. Hver króna skiptir máli og þannig er víðar verið að draga saman krónur í þessi tækjakaup.
Aðgerðarþjarki (róbót) er nú í notkun á helstu sjúkrahúsum í nágrannalöndunum en hann nýtist til margvíslegra skurðaðgerða, sérstaklega þó við þvagfæraskurðlækningar sem og aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna. Inngripið verður minna en með hefðbundinni aðferð, hægt að hlífa betur nærliggjandi líffærum og viðkvæmri starfsemi og stuðla þannig að því að batinn verði skjótari. Segja má að þjarkinn sé framlenging á fingrum skurðlæknisins þannig að allar hreyfingar hans verði nákvæmari. Sýn skurðlæknisins í aðgerðarþjarkanum er auk þess framúrskarandi góð.
Aðgerðarþjarki er dýr og nú stendur yfir átak til þess að safna fé til að kaupa á slíku tæki fyrir Landspítala. Framlag Verzlunarskólafólks, sem og allra annarra, í þá söfnun og þannig til framþróunar í skurðaðgerðartækni á landinu, er afar mikilvægt.
Sjá um söfnun fyrir aðgerðarþjarka á vef Íslandsbanka:
Við kaupum róbót
Á myndinni eru Eiríkur Jónsson, yfirlæknir, Ingibjörg Ósk Jónsdóttir dönskukennari, Magnea Ragna Ögmundsdóttir skrifstofustjóri
og Ragnheiður Jónsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur.