Frá framkvæmdastjórn Landspítala:
Hluti framkvæmdastjórnar kom saman í hádeginu í dag, fimmtudaginn 27. mars 2014, til að fara yfir stöðuna á spítalanum en eins og þið vitið hefur hann verið yfirfullur að undanförnu. Ástandið er enn þungt en þó betra en í gær. Allir hafa lagst á eitt til að sinna þeim sem á þjónustu okkar þurfa að halda.
Aðsókn að bráðamóttöku var áfram mikil fram eftir kvöldi í gærkvöldi en hefur heldur dregist saman það sem af er degi í dag.
Gripið var til þess ráðs að fresta valaðgerðum til að tryggja að hægt væri að sinna þeim sjúklingum sem koma brátt inn. Er þetta auðvitað ráðstöfun sem kemur sér illa bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur sem og starfsemi á Landspítala. Lagt hefur verið yfir á legudeildum spítalans og vegna þessa hefur starfsfólk verið beðið um að bæta á sig aukavöktum. Starfsfólk á rannsóknarsviði kom fyrr til vinnu í dag svo hægt væri að flýta því að niðurstöður úr blóðprufum liggi fyrir, svo ekki komi til tafa á útskriftum.
Leitað var til sjúkrahúsanna í nágrenni höfuðborgarinnar sem öll tóku við sjúklingum frá Landspítala í gær og eru tilbúin að gera það áfram. Einnig var haft samband við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Læknavaktina sem sýndu stöðunni á Landspítala mikinn skilning leggja sitt að mörkum.
Framkvæmdastjórn kemur aftur saman í hádeginu á morgun til að meta ástandið og undirbúa starf helgarinnar.
Bestu þakkir til ykkar allra.