Epli.is hefur fært kvenlækningadeild 21A á Landspítala 7 iPad spjaldtölvur og 2 iPod tæki til áframhaldandi notkunar vegna tilraunaverkefnis á deildinni. Verkefnið felst í því að nota spjaldtölvur til að draga úr kvíða fyrir aðgerðir og auka slökun, fræðslu og afþreyingu hjá konum sem undirgangast aðgerðir á kvenlækningadeild.
Verkefnið hófst í kjölfar vinnu leshóps hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem fóru meðal annars yfir grein um áhrif tónlistar til slökunar og kvíðastillingar á skurðdeildum. Að frumkvæði tveggja starfsmanna kvenlækningadeildarinnar var leitað til Bjarna Ákasonar, framkvæmdastjóra Epli.is, sem sýndi verkefninu strax áhuga og lánaði deildinni iPad spjaldtölvur og iPod tæki til notkunar í fjóra mánuði. Fleiri sýndu stuðning í verki; 365 miðlar opnuðu fyrir OZ appið, Tónlist.is fyrir notkun á tónlist, Lilja Oddsdóttir og Friðrik Karlsson gáfu deildinni slökunarefni sitt og Tónlist og hljóðbók.is veitti aðgang að nokkrum lesnum skáldsögum, innlendum og erlendum.
Eplismenn voru mjög ánægðir með niðurstöðurnar og þann 4. mars 2014. afhenti Ólafur Sólimann, viðskiptaþróunarstjóri Epli.is, kvenlækningadeildinni iPad spjaldtölvurnar og iPod tækin til áframhaldandi notkunar.
Ljósmynd: Harpa Hilmarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á kvenlækningadeild, Hilda Friðfinnsdóttir og Edda Sveinsdóttir, ljósmæður og forsprakkar verkefnisins, Hrund Magnúsdóttir, deildarstjóri kvenlækningadeildar, Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna-og barnasviðs, Ólafur Sólimann hjá Epli.is og Ásta Gunnarsdóttir, aðstoðardeildarstjóri kvenlækningadeildar.