Nýja tækið hefur marga kosti umfram það gamla, m.a. er minni geislaskammtur notaður við myndatöku, myndgæði eru meiri og tækið er mjög notendavænt.
Þrjú hjartaþræðingartæki eru nú í notkun á Landspítala og alla jafna unnið á þremur þræðingarstofum samtímis. Tvær eru notaðar fyrir kransæðaþræðingar og ein fyrir raflífeðlisfræðileg inngrip eins og brennsluaðgerðir vegna hjartsláttartruflana og gangráðsísetningar. Starfsemin er umfangsmikil og á þriðja þúsund aðgerðir á ári hverju.
Vakt er á hjartaþræðingastofunni allan sólarhringinn alla daga ársins. Tafarlaus hjartaþræðing með belgvíkkun og stoðnetsísetningu á lokuðu æðinni er nú kjörmeðferð við bráðri kransæðastíflu og þarf því að vera í boði hvenær sem er sólarhringsins. Dánartíðni vegna kransæðastíflu hefur lækkað verulega á þeim áratug síðan þessi vakt var tekin upp.