Velferðarsjóður barna færði Rjóðri, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og fötluð börn, eina og hálfa milljón króna að gjöf á 10 ára afmælinu 20. mars 2014. Féð verður notað til breytinga á húsnæðinu. Fjölmenni fagnaði afmæli Rjóðurs í húsnæði þess við voginn í Kópavogi á afmælisdaginn.
Velferðarsjóður barna átti veg og vanda að stofnun Rjóðurs og hefur síðan stutt starfsemina sem er núna hluti af kvenna- og barnasviði Landspítala og í nánum tengslum við Barnaspítala Hringsins. Börn og unglingar með langvinna sjúkdóma koma til hvíldarinnlagna í Rjóður og frá Barnaspítalanum í endurhæfingu eftir sjúkdóma eða slys. Á 10 árum hafa um 160 börn og unglingar dvalið í Rjóðri auk þeirra sem hafa verið þar í endurhæfingu.