Vísindasjóður Landspítala hefur veitt þrjá styrki til nýsköpunarverkefna þar sem starfsmenn Landspítala eru í forsvari. Hver styrkjanna nemur tveimur milljónum króna og voru þeir afhentir 14. mars 2014 í Hringsal, að viðstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra meðal annarra. Þetta er í fyrsta skipti sem sjóðurinn veitir slíka styrki.
Styrkhafarnir eru:
Einar Stefánsson, yfirlæknir og prófessor, augndeild, skurðlækningasvið
Orri Þór Ormarsson barnaskurðlæknir, Barnaspítala Hringsins, kvenna- og barnasvið
Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir og prófessor, blóðmeinafræðideild, rannsóknarsvið
Nánar um styrkhafana og rannsóknir þeirra:
Einar Stefánsson
yfirlæknir og prófessor
augndeild, skurðlækningasvið
Súrefnismælir fyrir sjónhimnu – af rannsóknarstigi yfir í klíníska notkun
Samstarfsaðilar:
- Rannsóknarhópur á Landspítala / við H.Í.:
Sveinn Hákon Harðarson, rannsóknasérfræðingur, Ólöf Birna Ólafsdóttir, doktorsnemi, Þórunn Scheving Elíasdóttir, doktorsnemi, Davíð Þór Bragason, deildarlæknir, Þór Eysteinsson, prófessor
- Tækniþróun hjá Oxymap ehf.
Gísli Hreinn Halldórsson, verkfræðingur, Róbert Arnar Karlsson, verkfræðingur, Stephen Arthur Christian, tölvunarfræðingur, Ágúst Úlfar Sigurðsson, tæknifræðingur, Svava Ágústsdóttir, heilbrigðisverkfræðingur
- Erlendir samstarfsaðilar
Háskólasjúkrahúsið í Árósum (Toke Bek, yfirlæknir). Kaupmannahafnarháskóli (Morten laCour), Háskólinn í Leuven, Belgíu (Ingeborg Stalmans). Um 15 stofnunum til viðbótar, sem hafa fengið Oxymap tækið í hendur, verður boðið til samstarfs.
Einar er fæddur 1952. Hann lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands og doktorsprófi frá Duke háskólanum í Norður Karólínu. Hann hefur beitt sér sérstaklega í nýsköpun og stofnun sprotafyrirtækja, sem byggja á vísindalegum grunni. Einar hefur verið yfirlæknir á augndeild Landspítala og prófessor við Háskóla Íslands frá 1989.
Vísindastarf og nýsköpun:
1. Súrefnisbúskapur í augum. Einar og samstarfsmenn eru í fremstu röð í heiminum á þessu sviði og hafa gert fjölda uppgötvana og hafa þróað mælitæki til að mæla súrefnisástand augna í mönnum. Það tæki er grundvöllur sprotafyrirtækis, Oxymap ehf.
2. Lyfjaþróun. Rannsóknahópurinn hefur þróað nanótækni til að koma lyfjum betur inn í auga og gert margar einkaleyfisvarðar uppgötvanir á því sviði. Lyfjaþróunin hefur m.a. getið af sér 2 sprotafyrirtæki, Oculis ehf. í augnlyfjagerð og Lipid Pharmaceutical sem fæst við lyfjaefni úr lýsi.
3. Blinduvarnir í sykursýki. Rannsóknahópurinn hefur m.a. þróað áhættugreiningu og hugbúnað til að stýra augnskimun í sykursýki og hagræða heilbrigðisþjónustu með vísindalegum aðferðum. Sprotafyrirtækið Risk hefur verið stofnað um þetta verkefni.
Orri Þór Ormarsson
barnaskurðlæknir
Barnaspítali Hringsins, kvenna- og barnasvið
Nýtt lyf til meðhöndlunar á hægðatregðu og til tæmingar fyrir ristilspeglanir
Samstarfsaðilar
Einar Stefánsson yfirlæknir. Háskóli Íslands. Lýsi Hf. Pharmarctica á Grenivík. Lipid Pharmaceuticals.
Orri er fæddur 1965. Hann er barnaskurðlæknir og starfar við barnaskurðdeild, Barnaspítala Hringsins og Lækna- og Handlæknastöðina í Glæsibæ. Orri lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands og sérnámi í almennum skurðlækningum og barnaskurðlækningum við Háskólasjúkrahúsið í Þrándheimi og Háskólasjúkrahúsið í Kaupmannahöfn þar sem hann starfaði sem sérfræðingur í barnaskurðlækningum í þrjú ár áður en hann hóf störf á barnaskurðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss árið 2006.
Vísindastarf og nýsköpun:
Orri hefur frá árinu 2006 stundað rannsóknir á stílum til notkunar við hægðatregðu. Orri er aðalrannsakandi sprotafyrirtækisins Lipid Pharmaceuticals ehf. sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala Háskólasjúkrahúss og Lýsi hf. Verkefnið er grunnur að doktorsnámi Orra við Háskóla Íslands. Að auki hefur Orri tekið þátt í þróun og rannsóknum á smyrsli sem inniheldur fríar fitusýrur til lækninga.
Páll Torfi Önundarson
yfirlæknir og prófessor
Blóðmeinafræðideild, rannsóknarsvið
Stjórnun warfarins með Fiix-prothrombin-tíma (Fiix-INR) í samanburði við prothrombin tíma (INR)
Samstarfsaðilar:
Brynja R. Guðmundsdóttir lífeindafræðingur og þróunarstjóri, rannsóknarsvið, Davíð O. Arnar framkvæmdastjóri lyflækningasviðs, Einar S. Björnsson yfirlæknir og prófessor, lyflækningasvið. Kristín A. Einarsdóttir lífeindafræðingur, rannsóknarsvið, Rannveig Einarsdóttir deildarstjóri, deild lyfjamála, Ólafur S. Indriðason nýrnalæknir, lyflækningasvið, Brynjar Viðarsson sérfræðilæknir, lyflækningasvið, Magnús Karl Magnússon sérfræðilæknir og prófessor
Charles W. Francis, Strong Memorial Hospital/University of Rochester. Haematological Technologies Inc, Burlington, Vermont, USA.
Páll er fæddur 1955, lauk embættisprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands og stundaði sérnám við University of Connecticut og University of Rochester Medical Center í Rochester. Hann hefur sérfræðiviðurkenningar í blóðmeinafræði, blóðsjúkdómum og lyflækningum. Hefur starfað sem sérfræðingur við Blóðmeina- og blóðsjúkdómadeild Landspítalans og sem yfirlæknir frá 2002. Hann hefur verið prófessor við læknadeild Háskóla Íslands frá 2009.
Vísindastarf og nýsköpun:
Páll Torfi hefur aðallega stundar rannsóknir á sviði blóðstorknunarvandamála og blóðþynningar. Páll og Brynja R. Guðmundsdóttir hófu 2008 tilraunir með áhrif einstakra K-vítamín háðra storkuþátta á blóðstorknun og komust að því að, - öfugt við það sem áður var talið -, voru það einkum áhrif tveggja þátta, II og X, sem höfðu áhrif á blóðstorknun blóðþynntra einstaklinga sem taka warfarín og skyldra lyfja en að áhrif storkuþáttar VII truflaði INR mælingar. Í framhaldi af því fundu þau upp nýtt blóðstorkupróf sem mælir eingöngu áhrif storkuþátta II og X, Fiix-prothrombin tíma (Fiix-PT), og hlutu Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2011 (1. verðlaun) vegna þess. Þau hafa síðan aflað einkaleyfis á Fiix-PT og stofnað sprotafélagið Fiix Diagnostics. Til þess að meta hvort Fiix-PT leiði til bættrar blóðþynningar warfaríns (Kóvars®) hafa þau undanfarin ár unnið að tvíblindaðri slembaðri samanburðarrannsókn á blóðþynningu sjúklinga á Kóvar. Fyrstu niðurstöður benda til þess, að blóðþynningin verði stöðugri sé skömmtun byggð á Fiix-PT.