Fiðlusnillingurinn Midori heimsótti Bataskólann á geðsviði 6. mars 2014 og lék fyrir gesti í Samkomusalnum á Kleppi.
Midori er hér á landi til að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún er einn færasti fiðluleikari heims og á stöðugum ferðalögum vegna tónleikahalds. Hún leikur á nærri 100 tónleikum á hverju ári og kennir jafnframt í Kaliforníuháskóla. Midori er japönsk en nam í Bandaríkjunum og býr þar.
Auk þess að leggja hart að sér í tónleikahaldi og kennslu leggur Midori mikla áherslu á samfélagsvinnu með því að fræða um tónlist, ekki síst börn.
Midori lék af mikilli snilld nokkrar af perlum tónbókmenntanna í dag í samkomusalnum á Kleppi og sagði frá sér, tónlistarferli sínum, tónverkunum sem hún töfraði fram og frá hljóðfærinu sem hún handlék. Henni var vel fagnað í lokin.
Ásamt því að vera tónlistarmaður hefur Midori meistaragráðu í sál- og kynjafræði frá New York University. Hún hlaut heiðursdoktorsnafnbót frá Yale háskóla árið 2012 og er í bandarísku lista- og vísindaakademíunni.
Bataskólinn er hluti af bataþjónustu geðsviðs.. Skólinn stendur fyrir fjölbreyttu námskeiðshaldi. Námskeiðunum er ætlað að hjálpa fólki að ná stjórn á eigin lífi, hafa jákvæð áhrif á lífsgæði og bjargir, glæða von og auka möguleika á að því að skapa sér merkingarbæra framtíð óháð lækningu.
Midori leikur Menelssohn á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands 6. og 7. mars 2014