Þetta orðasafn er fyrst og fremst ætlað nemendum og starfsmönnum í hinum ýmsu greinum heilbrigðisfræða og stofnunum heilbrigðiskerfisins. Það á þó erindi til allra þeirra sem áhuga hafa á byggingu mannslíkamans og getur komið að gagni hvar sem umræður verða um eðlilega starfsemi líffæra, uppbyggingu og þjálfun líkamans eða um kvilla, meinsemdir og sjúkdóma í tilteknum líffærum. Meginhugmyndin með útgáfunni er að koma íslensku heitunum á framfæri og hvetja til notkunar þeirra.
Orðanefnd Læknafélags Íslands átti 30 ára afmæli árið 2013 og starfar af fullum krafti. Nefndin hefur aðsetur og vinnuaðstöðu hjá Stofnun Árna Magnússonar við Neshaga þar sem Íðorðasafn lækna er varðveitt í Orðabankanum. Formaður Orðanefndar er Jóhann Heiðar Jóhannsson en aðrir í nefndinni eru Eyjólfur Þ. Haraldsson og Magnús Jóhannsson, allir orðanefndarmenn um áratugaskeið.