Með gjöfinni núna er aðstaða fyrir aðstandendur bætt til muna. Gefendurnir eru vinahópur fjölskyldu Skarphéðins Andra sem varð til í Menntaskólanum við Sund og hefur síðan þá kallað sig Bíóvini. „Það voru nokkrir eðalgæjar úr Árbænum og nokkrar stælskvísur úr Mosó“, segir Herborg Árnadóttir sem afhenti gjöfina ásamt Hauki Þór Ólafssyni. „Við fórum að hittast og fara saman í bíó og bættust makar og fullt af börnum í vinahópinn þannig að við erum núna 26 talsins.“
Skarphéðinn Andri heitinn var á gjörgæsludeildinni í Fossvogi og þangað skiptist fólk úr Bíóvinum á um að koma og styðja fjölskyldu hans. Hugmyndin að söfnuninni kviknaði þegar einn úr vinahópnum, Einar Clausen, tvínónaði ekki við hlutina og fór og keypti viftu og gaf gjörgæslunni í stað ónýtrar og háværrar viftu sem þar var og olli óþægindum. „Við heyrðum af því að þó að aðbúnaður aðstandenda væri góður þá mætti kannski bæta eitthvað“, segir Herborg. „Þess vegna ákváðum við að safna og gefa gjörgæslunni ágóðann. Yndislegt að sjá að þetta kemur í góðar þarfir.“