Vandamálin á sviðinu eru þó langt frá því að vera leyst og mörg brýn verkefni sem bíða úrlausnar, segir Davíð: „Meðal annars er verið er að skoða það að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga á þeim deildum þar sem mest álag er og unnið markvisst í að laða nýja hjúkrunafræðinga til starfa. Sömuleiðis er verið að vinna í að efla nýliðun meðal sérfræðilækna og hafa nokkrir verið ráðnir til starfa erlendis frá. Þá er mjög brýnt að reyna að styðja við þær sérgreinar lyflækninga þar sem mönnunarvandinn er mestur eins og í krabbameinslækningum og nýrnalækningum“.
Á haustmánuðum 2013 voru tíðar fregnir af vandamálum á Landspítala, ekki síst af stærsta sviði sjúkrahússins, lyflækningasviðinu. Vandmálin þar voru fjölþætt en snérust meðal annars um lélega mönnun unglækna, mikið álag á sérfræðilæknum og hjúkrunarfræðingum, landflótta heilbrigðisstarfsfólks og skorti á nýliðun sérfræðilækna. Tíðrætt var um litla starfsánægju á sviðinu og reyndar á sjúkrahúsinu öllu. Heilbrigðisstarfsmenn létu margir hverjir heyra í sér í fjölmiðlum og kváðu sumir svo fast að orði að Landspítali væri komin fram af bjargbrúninni. Heilbrigðisráðherra og þáverandi forstjóri Landspítala sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í september síðastliðnum þar sem fram kom að nauðsynlegt væri að snúa blaðinu við og styrkja stöðu lyflækninga á sjúkrahúsinu.
Að undanförnu hefur verið minna um neikvæðar fréttir af Landspítala og umtalað er að tónninn hjá starfsmönnum sé jákvæðari. Á lyflækningasviði hefur átt sér stað ákveðin endurskipulagning og nýir stjórnendur tekið við. Ráðist var í að skilgreina hver brýnustu vandamál sviðsins væru og búa til aðgerðaráætlun til að takast á við þau. Skortur á deildarlæknum, ungum læknum sem hafa lokið kandidatsári, var eitt af lykil vandamálunum. „Verkefnið er gríðarlega umfangsmikið og það mun taka nokkurn tíma að bæta stöðu lyflækningasviðs. Staðan er enn þannig að lítið má útaf bregða. Áhugi deildarlækna á að koma aftur til starfa á sviðinu er þó ánægjulegur og mikilvægt skref í rétta átt“ segir Davíð O. Arnar, framkvæmdastjóri sviðsins.