Miðað er við að verkefnið verði komið á fullt skrið þegar “Hjólað í vinnuna” hefst í maí. Styrkirnir felast í því að starfsmenn gera samning við spítalann um að nota vistvæna ferðamáta til og frá vinnu (ganga, hjóla eða nota strætó) að minnsta kosti þrisvar í viku. Þessi ákvörðun er hluti af markmiðum spítalans um að verða heilsueflandi vinnustaður og sömuleiðis í samræmi við metnaðarfulla umhverfisstefnu hans.
Landspítali er einn stærsti vinnustaður landsins með ríflega 4.700 starfsmenn en samkvæmt samgöngukönnunum nota einungis um 21% þeirra (um 960 manns) vistvæna samgönguhætti til og frá vinnu. Með upptöku samgöngustyrkja er stefnt að því að auka hlutfall þeirra starfsmanna sem nota vistvæna ferðahætti til og frá vinnu um 10%. Það myndi þýða að rúmlega 1.420 manns notuðu slíkan ferðahætti með tilheyrandi minnkun útblásturs og fækkunar bíla á bílastæðum spítalans. Um 2.700 manns sækja vinnu til Landspítala á hverjum virkum degi þannig að ef vel tekst til á bílum að fækka verulega á götum borgarinnar. Til að hvetja enn frekar til vistvænna samgönguhátta verður aðkoma hjólandi og gangandi vegfarenda bætt til muna.
Páll Matthíasson forstjóri: “Við höfum á síðustu mánuðum lagt vaxandi áherslu á að efla starfsanda og starfsánægju og þetta verkefni er liður í því að gera Landspítala að betri vinnustað. Með upptöku samgöngustyrkjanna getum við stuðlað að heilsueflingu starfsmanna. Auk þess fækkað bílum á götum borgarinnar um 200–250 á dag og þannig lagt vænan skerf til betri loftgæða í borginni. Svo felst í þessu kjarabót fyrir þá starfsmenn sem nýta sér þetta þannig að ávinningurinn er margvíslegur. Reynsla annarra, eins og t.d. ÁTVR, af upptöku styrkjanna er mjög góð og birtist ávinningurinn m.a. í færri fjarvistum vegna veikinda og mun minni CO2 losun. Ef við náum markmiðum okkar með upptöku styrkjanna myndi losunin minnka um 150 tonn á ári, sem er ekkert smáræði”. |
Undirbúningsvinna vegna samgöngustyrkjanna hefur staðið yfir síðan á síðasta ári en framkvæmdastjórn skipaði hóp til að kanna hvort fýsilegt væri að taka upp slíka styrki, m.a. með hliðsjón af góðri reynslu annarra stofnana og fyrirtækja. Undirbúningshópurinn lagði til að í það yrði farið sem tilraunaverkefni til 6 mánaða og nú hefur verið ákveðið að hrinda tillögum hópsins í framkvæmd. Nýr hópur undir stjórn Bryndísar Hlöðversdóttur starfsmannastjóra mun undirbúa innleiðingu verkefnisins sem kemur til framkvæmda á vormánuðum.
Nánari útfærsla á samgöngustyrkjum verður kynnt ítarlega fyrir stjórnendum og starfsmönnum á næstu vikum.