Kvenfélagið Hringurinn er 110 ára í dag, sunnudaginn 26. janúar 2014, og í tilefni dagsins voru Barnaspítala Hringsins færðar að gjöf 110 milljónir króna, ein milljón fyrir hvert ár í sögu félagsins. Styrkurinn er veittur úr Barnaspítalasjóði Hringsins. Deildarstjórar og yfirlæknar Barnaspítalans hafa unnið að tillögum um hvernig fénu skuli ráðstafað:
Barnaskurðlækningar u.þ.b. 10 milljónr
Vökudeild u.þ.b. 35-40 milljónir
Legudeild barna og bráðamóttaka barna u.þ.b. 40-50 milljónir
Barna- og unglingageðdeild (BUGL) u.þ.b. 3-5 milljónir
Stærstur hluti gjafafjárins verður notaður til kaupa á tækjabúnaði og til að bæta aðstöðu á Barnaspítala Hringsins og á barna- og unglingageðdeild, BUGL, við Dalbraut, svo sem að endurnýja hluta sjúkrarúma.
Valgerður Einarsdóttir, formaður Hringsins, afhenti Jóni Hilmari Friðrikssyni, framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs, gjöfina og sagði meðal annars: „Við Hringskonur erum stoltar af því að geta stutt við það frábæra starf sem fer fram á Barnaspítala Hringsins og BUGLi. Börnin okkar eru í góðum höndum."
Úr ávarpi Valgerðar:
-Í dag eru 110 ár síðan frá Kristín Vídalín Jacobson kallaði til fundar í húsakynnum Hússtjórnarskólans en hann var þá í Iðnaðarmannahúsinu við Tjörnina. Liðlega 40 konur mættu og Hringurinn var stofnaður.
-Til ársins 1942 áttu berklasjúkir hug Hringskvenna. Þær reistu Hressingarhælið í Kópavogi sem tók til starfa árið 1936 og ráku það til loka árs 1940.
-Árið 1942 var breytt um stefnu og bygging barnaspítala varð markmiðið. Hringskonur komu að barnadeild sem var opnuð 1957, Barnaspítala Hringsins 1965 í sérstakri álmu, geðdeild fyrir börn að Dalbraut 1971, vökudeild 1976 og aftur 1988.
-Á 90 ára afmæli Hringsins lýstu stjórnvöld yfir að þau vildu eiga samleið með Hringnum um að byggja nýjan barnaspítala. Hringskonur fóru af krafti í málið og lofuðu 100 milljónum í verkið. Rammasamningur var undirritaður 1994 um bygginguna.
-Barnaspítali Hringsins var vígður 2003 á 99 ára afmælisdegi Hringsins.
-Hringurinn er vinnufélag og vinnur af metnaði að fjáröflun í Barnaspítalasjóð Hringsins.