Landspítali hampar nýsköpunarverðlaunum í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2014 fyrir verkefnið „Rauntíma árangursvísar á bráðadeild“
Í rökstuðningi valnefndar kom m.a. eftirfarandi fram: „Bráðasvið LSH er mjög flókin starfsemi og erfitt getur reynst að hafa yfirsýn um úrlausn og stöðu skjólstæðinga sem leita þangað þjónustu á hverjum tíma. Með hugkvæmni og áræðni voru nýttar og tengdar saman upplýsingar sem liggja fyrir í rauntíma og þær settar fram með myndrænum hætti. Rauntíma árangursvísar á bráðadeild er einfalt tæki, það er nýjung á sínu sviði og ekki til sambærilegt kerfi í nágrannalöndum okkar. Með verkefninu eru nýttar hugmyndir út framleiðslugeiranum til að auðvelda störf í hefðbundnum þjónustugeira“.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhenti nýsköpunarverðlaunin á ráðstefnunni „Skapandi opinber þjónusta“ sem haldin var 24. janúar 2014 á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.
Fjögur verkefni til viðbótar fengu viðurkenningu fyrir nýsköpun:
- Dalvíkurbyggð fyrir verkefnið Söguskjóður
- Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fyrir verkefnið Að halda glugganum opnum
- Framtíðarsýn Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis í menntamálum
- Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.