Landspítali á aðild að vinnu við að skapa öfluga miðstöð þekkingargreina og nýsköpunar á Íslandi í Vatnsmýri. Samstarfsvettvangur um eflingu þekkingarsvæðis í Vatnsmýrinni og mótun áætlunar þar að lútandi var formlega stofnaður 20. janúar 2014 með undirritun samkomulags Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, auk spítalans.
Sameiginlegt markmið samkomulagsins er að móta metnaðarfulla áætlun um eflingu Vatnsmýrarinnar sem miðstöðvar þekkingargreina og nýsköpunar á Íslandi.
Í samstarfinu verður lögð áhersla á eftirfarandi:
- Að greina núverandi stöðu og helstu sóknarfæri þekkingargreina í Vatnsmýri í alþjóðlegu samhengi.
- Að skapa sameiginlega framtíðarsýn um þekkingarsvæðið Vatnsmýri.
- Að undirbúa kynningu á svæðinu til valinna aðila hérlendis og erlendis.
- Að setja fram aðgerðaráætlun með tímasettum markmiðum um næstu skref.
Vinnu við framangreind atriði á vera lokið um miðjan apríl 2014.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, Gunnar Einarsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Ari Kristinsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, undirrituðu samkomulagið. Þessi hópur myndar stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsvæði í Vatnsmýri.
Kostnaður við verkefnið er áætlaður sex milljónir króna og greiðir Reykjavíkurborg tvær milljónir króna, SSH eina milljón, HÍ eina milljón, HR eina milljón og Landspítali eina milljón króna.