Þjóðkirkjan hóf fyrir tilstuðlan biskups söfnunarátak fyrr á þessu ári og tóku þátt söfnuðir, félagasamtök og einstaklingar um land allt. Fjölmargir komu að átakinu og var bryddað upp á fjölbreytilegustu söfnunarleiðum, s.s. vöfflusölu, bingóspili, tónleikum, biblíumaraþoni og 30 tinda áheitafjallgöngum.
Biskup sagði við þetta tækifæri að ánægjulegt hefði verið að sjá söfnuði landsins sameinast um þetta verkefni fyrir þjóðarsjúkrahúsið. Forstjóri Landspítala tók undir þetta og þakkaði kirkjunni mikilvægt framlag til kaupa á línuhraðlinum: „Þetta skiptir okkur miklu máli, bæði það fjármagn sem hér um ræðir, en ekki síður sá hlýhugur þeirra fjölmörgu af landinu öllu sem að söfnuninni komu því Landspítali er spítali allra landsmanna“.