Það bíða okkar mörg umbóta- og endurbótaverkefni eftir æði mögur undanfarin ár. Það er sannarlega gott til þess að hugsa að með hækkandi sól er loksins kominn grundvöllur að þeirri viðspyrnu sem okkur er nauðsynleg næstu árin.
Desember er erilsamur mánuður og kröfurnar sem við gerum til okkar oft miklar. Nægar eru þær nú raunar hina mánuðina en til viðbótar öllu daglegu amstri í leik og starfi viljum við gera okkur dagamun eins og kostur er. Þetta getur valdið miklu álagi á andlega og líkamlega heilsu og undanfarnar vikur hafa sérfræðingar okkar komið á framfæri mikilvægum hollráðum á fésbókarsíðu spítalans sem ég hvet ykkur til að kynna ykkur.
Nú er jólahátíðin rétt handan við hornið og það er einlæg ósk mín að hún veiti ykkur og fjölskyldum ykkar góðar samverustundir og kærkomna hvíld. Eðli máls samkvæmt verða þó margir að störfum á spítalanum og sendi ég þeim sérstakar hátíðarkveðjur.
Það er ósk mín að við sjáumst sem flest í árlegu jólaboði Landspítala sem verður í Hörpu mánudaginn 30. desember frá kl. 17:00-19:30.
Gleðileg jól!
Páll Matthíasson