Ávarp Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala
við messu í Hallgrímskirkju 24. nóvember 2013.
Komið sæl!
Það er mér sérstök ánægja að standa hér í dag í þessari glæsilegu kirkju fyrir framan ykkur. Tilefnið er líka einstaklega ánægjulegt. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, greindi frá því í apríl síðastliðnum að ákveðið hefði verið að safna fyrir línuhraðli á Landspítalanum en hún tók þá ákvörðun að hvetja söfnuði landsins til að safna fyrir þessu tæki í samráði við fyrrverandi forstjóra. Línuhraðall er grundvallartæki við geislameðferð á öllum tegundum af krabbameini, algjörlega nauðsynlegt við nútíma lækningar en líka ákaflega dýrt tæki og kostar hundruð milljóna króna. Landspítali, einn og sér á sínum ríkisfjárlögum, hefur ekki bolmagn til að fjármagna svona tæki að fullu og þarf að reiða sig á gjafmildi og hlýhug borgaranna um margar nýjungar og þetta er með dýrustu tækjakaupum sem ráðist hefur verið í. Því var það ómetanlegt að biskup skyldi taka þessa ákvörðun og frábært, og í raun ótrúlegt, að verða vitni að því síðan hvernig kirkjur landsins og söfnuðir hafa tekið sig saman og efnt til söfnunar, samskota og átaks til að leggja málefninu lið.
Það fer vel á því að átakinu ljúki nú í dag hér í Hallgrímskirkju. Landspítalinn stendur hér í túnfæti kirkjunnar og reyndar er það svo að skrifstofur spítalans standa bókstaflega í skugga turns kirkjunnar, hér niðri í gömlu Templarahöllinni við Eiríksgötu. Hallgrímskirkja er í raun sóknarkirkja Landspítalans við Hringbraut og samstarf kirkjunnar og spítalans stendur á gömlum merg eins og ég hygg að séra Birgir muni rekja hér á eftir. Ég vil hins vegar nefna það sérstaklega að á Landspítala starfa margir prestar og gegna þar afar mikilvægu hlutverki við bæði almenna prestþjónustu og sálgæslu. Það er þannig að á spítalann leitar fólk á erfiðum tímum í lífi sínu og sú styrka hönd huggunar og stuðnings sem prestar veita er algerlega ómissandi.
Landspítali er þjóðarsjúkrahús og hornsteinn íslenskrar heilbrigðisþjónustu. En eins og með margt sem er dýrmætt þá er það stundum svo að fólk tekur því sem sjálfsögðu og sjálfgefnu að hér á landi sé rekið sjúkrahús eins og Landspítali, sjúkrahús sem stendur í fremstu röð háskólasjúkrahúsa á Norðurlöndum í meðferðarárangri, vísindum og kennslu. Landspítali snýst um almannaheill og er lykilhlekkur í heilbrigðiskerfinu og þar með í því samfélagi sem við viljum eiga. En af því hann er stór og af því að það kostar mikla peninga að reka hann og af því að það er flókið að byggja hann upp þá er eins og stjórnvöld veigri sér stundum við verkinu. Þegar á stangast vel afmarkaðir sérhagsmunir annars vegar og almannaheill hins vegar þá kennir reynslan okkur að almannaheillin víkur oftar, því miður. Sá niðurskurður sem þjóðarsjúkrahúsið hefur þurft að þola undanfarinn áratug er með ólíkindum og okkur sem þjóðfélagi til skammar. Spítalinn hefur sparað ríkinu 41,7 milljarða króna með niðurskurði undanfarin 6 ár og er nú kominn að fótum fram – er það það sem við, fólkið í þessu landi, vildum? Þrátt fyrir tiltekin áform í aðdraganda kosninga þá tala verkin og það er ljóst að stefnumörkun stjórnvalda, í raun undanfarinn áratug, hefur orðið sú að veikja þjóðarsjúkrahúsið og draga úr þjónustu þess. Ég vona svo sannarlega að botninum sé náð og komið að því að veita Landspítala þá viðspyrnu og það fé sem hann þarf til að rækja sitt hlutverk af sóma, með stoltu og vel höldnu starfsfólki sem sinnir hinum sjúku í nútíma byggingum með nútíma tækjum. Þess vegna, í þessu ljósi, er einstaklega ánægjulegt að skynja þann velvilja og skilning sem söfnuðir landsins sýna hlutverki Landspíta sem þjóðarsjúkrahúss sem vinnur að almannaheill.
Ég hef lengi haft mikinn áhuga á hamingjunni í öllum sínum myndum. Þar er ég eflaust ekki frábrugðinn öðrum hér inni en ég hef í starfi mínu sem geðlæknir reynt að nálgast hamingjuna með gleraugum vísinda- og fræðimannsins. Þannig hélt ég, m.a. í nokkrum kirkjum landsins, töluvert af fyrirlestrum um áhrifaþætti hamingjunnar í lífi fólks mánuðina eftir hrunið mikla haustið 2008 í von um að geta hjálpað fólki að setja áföllin í samhengi. Mér hefur alltaf þótt sérlega áhugavert að skoða hvað það er sem einkennir hamingjusamt fólk, fólk sem er „sátt við Guð og menn“ eins og sagt er. Það er tvennt sem er sérstaklega áberandi í fari þeirra sem hamingjusamastir eru: Annað er trúin. Sterk og heit trú og ríkt trúarlíf einkennir mjög þá sem sáttastir eru. Fyrir því eru vafalaust ýmsar ástæður; trúin boðar fagnaðarerindið og gefur fólki leið til að sjá líf sitt og hlutverk í samhengi. Trúin er líka tæki til að hjálpa fólki að fyrirgefa og sætta sig við hluti sem maður fær ekki breytt en það að geta fyrirgefið er eitt öflugasta tækið til að komast yfir erfiða hluti, sérstaklega ef maður hefur verið beittur órétti eins og kemur fyrir alla einhvern tímann. Sú auðmýkt sem trúin boðar er ábyggilega líka stór þáttur í því að ná sátt – við sjálfan sig en líka við aðra. Síðast en ekki síst þá er það samfélag hinna trúuðu. Fólk sem er virkt í safnaðarstarfi hittir aðra og það er sannarlega svo að maður er manns gaman, það er vel þekkt; að fólk sem á í miklum samskiptum við aðra er hamingjusamara en þeir sem einmana eru. Þannig er trúin ákaflega mikilvæg og áberandi hjá þeim sem hamingjusamir eru. Hitt atriðið sem einkennir þá hamingjusömu getur verið óháð trú en það er að taka þátt í óeigingjörnu samfélagsstarfi sem leiðir gott af sér. Það er hamingjuaukandi.
Þá kem ég að kjarna málsins – það frábæra átak sem biskup boðaði á vordögum og sem söfnuðir landsins hafa rækt áfram með óeigingjörnu söfnunarstarfi er dæmi um gefandi samfélagsstarf. Þetta frábæra átak verður ekki aðeins til góðs fyrir Landspítalann og þar með almannaheill heldur vona ég að það verði líka hamingjuaukandi fyrir allt það góða fólk sem að söfnuninni hefur staðið og sem við stöndum í þakkarskuld við. Takk fyrir.
(Talað orð gildir)