Guðsþjónustan hefst kl. 11:00 og er starfsfólk spítalans sérstaklega boðið velkomið til hennar. Starfsfólk af Landspítala aðstoðar við messuna. Þar á meðal flytur Páll Matthíasson forstjóri ávarp, Björg Þórhallsdóttir, söngkona og hjúkrunarfræðingur, syngur einsöng og messuþjónar eru m.a. úr hópi starfsfólks LSH. Þá munu sjúkrahúsprestar spítalans þjóna við altarisgönguna ásamt prestum Hallgrímskirkju en hugleiðingu flytur sr. Birgir Ásgeirsson, fyrrverandi sjúkrahúsprestur á Landspítala.
Um síðustu áramót hvatti biskup Íslands, frú Agnes Sigurðardóttir, til söfnunar innan Þjóðkirkjunnar til að styrkja kaup á „línuhraðli“ fyrir Landspítala. Sú söfnun hefur staðið yfir í kirkjum landsins síðan og lýkur nú á sunnudaginn. Hallgrímskirkja og Landspítali hafa jafnan átt í góðu samstarfi og verður messan á sunnudaginn helguð þessu verkefni.
Sigfinnur Þorleifsson sjúkrahúsprestur á Landspítala: „Við vonum að söfnunin verði góður stuðningur við kaup á hinu þýðingarmikla meðferðartæki. Líklegast skilar hún þó aðeins hluta af þeirri upphæð sem þarf til að kaupa svo dýrt tæki. Hins vegar er söfnunin mjög sterk og skýr áskorun til þjóðfélagsins um það að efla beri með öllum ráðum framgang Landspítala, svo mikilvægur sem hann er fyrir heilbrigðisþjónustu í landinu. Ennfremur er hún áskorun til yfirvalda um að einbeita sér að uppbyggingu hins nýja Landspítala. Starfsfólkið er undir gífurlegu álagi við núverandi aðstæður og tækjakostur er úr sér genginn. Sjúklingurinn líður fyrir það.“