Landspítali er aftur með starfsemi á Vífilsstöðum eftir langt hlé. Þangað var 20. nóvember 2013 flutt 18 rúma hjúkrunardeild á Landakoti (deild L2) sem síðan stendur til að stækka upp í 42 rými.
Húsnæðið á Vífilsstöðum hefur staðið autt síðan í apríl 2013 þegar hjúkrunarheimilið Holtsbúð fluttist þaðan í nýtt húsnæði í Garðabæ. Hrafnista var með starfsemi á Vífilsstöðum frá 2004 til 2010 þegar hjúkrunarheimilið Mörk við Suðurlandsbraut var opnað.
Heilsuhælið á Vífilsstöðum hóf starfsemi 5. september 1910 en þá var tekið á móti fyrstu sjúklingunum. Það var rekið af Heilsuhælisfélaginu til 1. janúar 1916 en þá tók ríkið við rekstrinum. Tilgangur með heilsuhælinu var eingöngu að vista og lækna berklasjúklinga. Vífilsstaðir voru berklahæli fram undir 1970 en þá var nafninu breytt í Vífilsstaðaspítala. Farið var að taka við öndunarfærasjúklingum og meðferðardeild fyrir áfengissjúklinga sem tilheyrði Kleppsspítala starfaði þar einnig frá 1976 til 2002.
Vífilsstaðir voru hannaðir af Rögnvaldi Ólafssyni, einum af stofnendum Verkfræðingafélags Íslands. Lokið var við húsið á 16 mánuðum. Saga Vífilsstaða í rúm 100 ár er vörðuð mörgum viðburðum og merkum. Til dæmis var Samband íslenskra berklasjúklinga stofnað þar en SÍBS kom upp vinnuheimilinu að Reykjalundi.
Starfsemi Landspítala lauk á Vífilsstöðum 2002 þegar lungnadeildist fluttist í Fossvog. Starfsemi á Vífilsstöðum tilheyrði þá Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Síðan hefur Landspítali ekki verið með eiginlega starfsemi á Vífilsstöðum en hefur þó nýtt geymsluhúsnæði á staðnum.
Starfsfólk fluttist af Landakoti með sjúklingunum að Vífilsstöðum og drjúgur hluti nauðsynlegs búnaðar.
Deildarstjóri hjúkrunardeildarinnar á Vífilsstöðum verður Ingibjörg Tómasdóttir iingibjo@landspitali.is.
Aðalnúmer á öldrunardeildinni á Vífilsstöðum verður 543 9270.
Skylt efni:
Flutningur á Vífilsstaði undirbúinn (frétt 2013)
Rifið niður og byggt upp á Vífilsstöðum (frétt 2003)