Davíð og Gyða hafa bæði langa starfsreynslu á Landspítala. Vilhelmína Haraldsdóttir lætur af starfi framkvæmdastjóra í dag samkvæmt ákvörðun Páls Matthíassonar forstjóra. Eru henni færðar þakkir fyrir störf í þágu spítalans.
Landspítali hefur mátt þola vaxandi þrengingar á síðustu árum. Ítrekað hefur verið lýst brýnni þörf fyrir viðreisn og framþróun eftir langvarandi samdráttarskeið og eru þessar breytingar liður í þeim áformum.
Davíð segir starfið fela í sér mikla áskorun. „Lyflækningasviðið hefur átt í miklum erfiðleikum og vandamálin þar eru fjölþætt. Það er augljóst að mikið verk er framundan og afar mikilvægt að vel takist til. Við verðum að veita viðspyrnu og hefja enduruppbyggingu nú þegar. Við Gyða hlökkum til að vinna með því góða fólki sem starfar á lyflækningasviðinu að þessu krefjandi verkefni“.
Davíð lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands. Hann er sérfræðingur í lyflækningum, hjartalækningum og heilbrigðisstjórnun. Davíð var við sérfræðinám við University of Iowa í Bandaríkjunum í lyflækningum, hjartalækningum og raflífeðlisfræði hjartans. Hann hefur lokið doktorsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur undanfarið starfað sem yfirlæknir Hjartagáttar og yfirlæknir hjartaþræðinga á Landspítala og verið klínískur prófessor við Háskóla Íslands.
Gyða lauk BS prófi í hjúkrun frá Háskóla Íslands og hefur MS gráðu í hjúkrun frá sama skóla. Hún var lengi deildarstjóri bráðamóttöku á Landspítala Hringbraut en hefur undanfarið verið verkefnastjóri við undirbúning nýs Landspítala.
(Fréttatilkynning)