Húsnæðið á Vífilsstöðum hefur staðið autt frá apríl 2013 þegar hjúkrunarheimilið Holtsbúð fluttist þaðan í nýtt húsnæði í Garðabæ.
Flutt verður 18 rúma hjúkrunardeild á Landakoti (deild L2) yfir á Vífilsstaði miðvikudaginn 20. nóvember 2013 og síðan opnað upp í 42 rými á næstu vikum eftir því hvernig gengur að ráða fólk. Starfsemin verður til að byrja með á 2. hæð Vífilsstaða, næsti áfangi verður á 3. hæð og loks verður opnað á 1. hæð.
Verkefnið er á forræði framkvæmdastjóra lyflækningasviðs. Skipuð var verkefnisstjórn til að undirbúa aðstöðuna á Vífilsstöðum fyrir þessa starfsemi með nauðsynlegum lagfæringum á húsnæði og öflun á mannskap, búnaði og tækjum. Hún tók til starfa 11. október s.l. og er þannig skipuð: Bryndís S. Guðmundsdóttir, verkefnastjóri á hagdeild, frá fjármálasviði, Dagbjört Þyri Þorvarðardóttir, deildarstjóri flæðisdeildar, Helga Gunnlaugsdóttir, verkfræðingur á heilbrigðis- og upplýsingatæknideild, Ingibjörg Tómasdóttir, deildarstjóri á L2, sem jafnframt verður deildarstjóri á Vífilsstöðum, Kristján Guðlaugsson, deildarstjóri á rekstrarsviði, Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á lyflækningasviði, Þórdís Ingólfsdóttir, mannauðsráðgjafi á lyflækningasviði, og Hildur Helgadóttir (hildurhe@landspitali.is), verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra, sem veitir jafnframt upplýsingar um stöðu og framgang flutningsins á Vífilsstaði.