Landspítali birtir nú starfsemistölur sínar fyrir janúar til september árið 2013 ásamt samanburði við sama tímabil árið 2012. Einnig eru birtar tölur um biðlista, rekstur og mannauð, eins og gert er ársfjórðungslega auk skorkorts spítalans.
Fram kemur að legudögum fjölgar nokkuð, heimsóknum á dag- og göngudeildir sömuleiðis og talsverð aukning hefur orðið í fjölda rannsókna á rannsóknarsviði. Langtímaveikindi starfsmanna hafa hins vegar minnkað umtalsvert og starfsmannavelta er nokkuð minni miðað við fyrra ár.
Áhyggjuefni er versnandi rekstrarstaða spítalans en hún er neikvæð um 3% og skýrist einkum af auknu umfangi rekstrarins eins og að ofan greinir. Loks vekur athygli að skráðum atvikum hefur fjölgað umtalsvert en sérstök áhersla hefur verið á bætta skráningu sem gerir samanburð milli ára erfiðan.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir eðlilegt að verkefnum spítalans fjölgi þar sem landsmönnum fjölgi. Eins og starfsmenn hafi margítrekað bent á þá fjölgi mest í elsta aldurshópnum en um 50% þeirra sem liggja á Landspítalanum eru 67 ára og eldri: “Ég er hins vegar ánægður að sjá draga úr langtímaveikindum starfsmanna og að skammtímaveikindin aukast ekki. Það er mikið álag á stofnuninni en þrautsegja starfsmanna er augljós. Á það verður þó ekki endalaust gengið og við leggjum á næstu misserum sérstaka áherslu á að efla Landspítala sem góðan vinnustað. Tölur um atvikaskráningu þarfnast sérstakrar skoðunar og eftirfylgni – ánægjulegt er að skráning hjá okkur er að aukast sem auðveldar okkur úrvinnslu atvika og að fylgjast með þróun á fjölda þeirra milli ára. Þó ekki sé hægt að álykta um þessar breytingar nú er ekki útilokað að um raunverulega aukna tíðni atvika sé að ræða.”
Landspítali gefur mánaðarlega út starfsemistölur fyrir stofnunina og eru þær aðgengilegar bæði á ytri og innri vef spítalans allt frá árinu 2000. Upplýsingunum er ætlað að varpa ljósi á flókna og margþætta starfsemi sem fram fer á spítalanum. Birtar eru lykiltölur starfseminnar ásamt fleiri áhugaverðum gögnum, sem og breytingu frá ári til árs.
Starfsemisupplýsingar LSH janúar til september 2013