Tuttugu Íslendingar með nýrnabilun á lokastigi bíða nú eftir gjafalíffæri. Þörf fyrir ígræðslu nýra hefur farið vaxandi á undanförnum árum vegna aukinnar tíðni nýrnabilunar sem m.a. má rekja til afleiðinga svokallaðra „lífsstílssjúkdóma.“ Til þess að freista þess að fjölga nýragjöfum úr lifandi einstaklingum er vefurinn opnaður. Bein vefslóð er http://www.landspitali.is/nyraigraedslur.
Þrótt tíðni nýraígræðslna frá lifandi gjöfum sé óvenjulega há á Íslandi er skortur á nýrum vaxandi vandamál hérlendis sem annars staðar. Á nýja vefnum er að finna ítarlegar upplýsingar um hverjir geta gefið nýra og jafnframt útskýrt hvernig ferlið er í kringum nýragjöf. Verkefnið er samstarfsátak Landspítala, Sjúkratrygginga Íslands og Errex ehf.
Um þessar mundir er áratugur liðinn frá fyrstu nýraígræðslunni á Íslandi. Allt fram til ársins 2003 fóru allar líffæraígræðslur fram erlendis en fyrsta nýraígræðslan á Íslandi var gerð í desember það ár. Eingöngu eru gerðar ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum hér á landi. Frá þeim tíma hefur 71 Íslendingur gengist undir aðgerð til ígræðslu nýra á Landspítalanum.
Ómetanleg gjöf
„Að gefa annað nýrað sitt er ómetanleg gjöf sem eykur lífsgæði þess er þiggur og er í yfirgnæfandi tilvika án heilsufarslegra eftirmála fyrir þann sem gefur,“ segir Hildigunnur Friðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur. „Í dag eru gerðar kröfur um að upplýsingar séu aðgengilegar, réttar og ítarlegar. Vefurinn, sem við erum að kynna, er mikilvægur hlekkur til þess að auðvelda fólki sem vill gefa nýra að taka upplýsta ákvörðun.“.
Lyftistöng fyrir íslenskt samfélag
„Við stigum mikið heillaspor þegar ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum hófust á Landspítala. Í kjölfarið fjölgaði þessum aðgerðum umtalsvert,“ segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala. „Rúmlega 60% nýrna sem grædd hafa verið í íslenska sjúklinga undanfarin ár hafa komið frá lifandi gjöfum. Við viljum gera enn betur og hafa má hugfast að við hverja aðgerð, sem framkvæmd er hér heima, sparast milljónir króna í heilbrigðiskerfinu,“ segir Runólfur.