Ég tek í dag við embætti forstjóra Landspítala.
Sem kunnugt er lætur Björn Zoëga nú af embætti eftir farsælt starf á erfiðum tímum í rekstri spítalans. Ég hef tekið þátt í þeim umbrotum með honum á vettvangi framkvæmdastjórnar og í klínísku starfi eins og þið öll. Það er afar áríðandi að samfella sé í starfi spítalans og að áfram sé unnið að þeim verkefnum sem snúa að innra starfi sem framkvæmdastjórn og fjöldi annarra starfsmanna hafa unnið að. Þess vegna féllst ég á beiðni heilbrigðisráðherra um að leiða hér starfið til 1. apríl 2014.
Við þekkjum öll að hér hefur verið tekið á í rekstrinum. Miklar breytingar hafa verið á starfseminni í kjölfar þess að rekstrargjöld Landspítala drógust saman um 24% á fjórum árum, eins og fram kemur í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Á sama tíma hafa störf okkar áfram skilað samfélaginu mikilli og góðri þjónustu við skjólstæðinga okkar. Við höfum einnig verið í fararbroddi í vísindastarfi og þekkingarþróun í landinu á þessum tíma. Það er árangur sem ekki verður frá okkur tekinn og augljós skilaboð til samfélagsins að þegar á reynir er Landspítali klettur í hafinu.
Stærstu áskoranir okkar næstu vikur og mánuði verður að fá fjárveitingavaldið í lið með okkur við að efla innra starf spítalans. Hagur sjúklinga okkar er megindrifkraftur starfsins á spítalanum. Forsenda þess að viðhalda og efla þessa þætti er starfsánægja og velferð starfsfólks. Framkvæmdastjórn og allir sem málið varðar munu leggja þunga áherslu á nauðsynlega vinnu í þessu tilliti.
Munum að leiðarljós Landspítala eru umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun og að hvergi má kvika frá þeim. Um það er samstaða á Landspítalanum og á þeim grunni óska ég eftir nánu samstarfi við ykkur öll næstu mánuði.
Páll Matthíasson