Skilgreint markmið samningsins felur í sér að einstaklingum sem nú eru innritaðir á vistunardeildum 18 og 20 á Landspítala Kópavogi verði tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til að lifa eðlilegu lífi samkvæmt ákvæðum laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
Fólkið mun búa áfram í sama húsnæði og hingað til en réttur þess til þjónustu og réttur í almannatryggingakerfinu gjörbreytist við það að vera ekki lengur innritað á sjúkrahús. Sú breyting sem verður á högum fólksins er mikilvægur áfangi í því að uppfylla ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Ás styrktarfélag var stofnað árið 1958. Félagið hefur langa og samfellda sögu af þjónustu við fólk með þroskahömlun á öllum æviskeiðum. Félagið rekur umfangsmikla dagþjónustu í Reykjavík ásamt búsetutilboðum í Kópavogi og Reykjavík.