Í tilefni af alþjóðadegi sjúkraþjálfunar 8. september 2013 stóð „Fagráð sjúkraþjálfara á Landspítala“ fyrir málþingi sjúkraþjálfunar á spítalanum föstudaginn 6. september 2013.
Á málþinginu var lögð áhersla á að segja frá rannsóknum sem eru í gangi innan sjúkraþjálfunar, þróunarverkefnum og nýjungum í þjónustu sjúkraþjálfunar en mikil gróska er í fagþróun og rannsóknum innan sjúkraþjálfunar. Málþingið tókst mjög vel og um það bil 70 manns frá starfstöðvum sjúkraþjálfunar sótti það.
Á alþjóðadegi sjúkraþjálfara efna sjúkraþjálfarar um allan heim til ýmissa viðburða til að efla fagið. Boðskapur „Heimssambands sjúkraþjálfara“ þetta árið er „Í góðu formi til framtíðar – fit for the future". Heimssambandið leggur áherslu á að sjúkraþjálfarar geta ýtt undir þátttöku barna, fullorðinna og aldraðra í fjölbreyttri hreyfingu og geta aðstoðað fólk við að vinna á meinum sem hugsanlega koma í veg fyrir getu þeirra til hreyfingar. Ástundun hreyfingar er ekki aðeins talin ávísun á heilbrigðari einstaklinga heldur líka ánægðari, framtakssamari og orkumeiri einstaklinga, hvort sem um sé að ræða unga eða gamla. Því sé fyllsta ástæða til að viðhalda og bæta líkamsástandið og vera í góðu formi fyrir framtíðina.