Grein sem vísindamenn frá Landspítala og Háskóla Íslands birtu í mars 2013 í ritinu Pharmaceutical Research var birt sérstaklega nú í vikunni á vefsíðunni Global Medical Discovery. Sú vefsíða birtir sérstaklega þær rannsóknarniðurstöður í líf- og læknisfræði sem þykja mest tíðindi hverju sinni.
Uppgötvunin felst í smíði nýs líkans sem líkir eftir yfirborði lungna að innanverðu en frumur í þessu yfirborði sjá m.a. um að taka á móti margvíslegum efnum úr því lofti sem við öndum að okkur og verja lungun gegn sýkingum.
Ýmis lyf voru notuð til þess að staðfesta að líkanið væri heppilegt til lyfjaprófana þannig að líkanið opnar nýja möguleika við lyfjaprófanir á efnum sem nýst gætu til lækninga á ýmsum lungnasjúkdómum.
Niðurstöðurnar eru m.a. afrakstur doktorsverkefnis Berglindar Benediktsdóttur lyfjafræðings. Að auki má þakka árangurinn góðri samvinnu Lífvísindaseturs, undir forystu Þórarins Guðjónssonar prófessors við lyfjafræðideild Háskóla Íslands, undir stjórn Más Mássonar prófessors og deildarforseta og klínískra lækna sem Ólafur Baldursson lungnalæknir og framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala hefur farið fyrir. Hann og Þórarinn hófu ræktun lungnafrumna hérlendis fyrir 10 árum.
Allmargir meistara- og doktorsnemar hafa nýtt líkanið og afsprengi þess í sínum verkefnum.