Svona tæki hefur ekki verið til á Landspítala. Með því er hægt að mæla köfnunarefnisoxíð (NO) í útöndunarlofti og greina með nákvæmari hætti en áður um hvers konar bólgu er að ræða í öndunarfærum. Hækkun á köfnunarefnisoxíði bendir til loftvegabólgu sem er næm fyrir meðferð með bólgueyðandi lyfjum, svokölluðum sterum. Þess háttar bólga er algeng hjá einstaklingum með astma og sumum með aðra bólgusjúkdóma í öndunarfærum.
Dóra Lúðvíksdóttir lungnasérfræðingur á Landspítala:
„Erlendar rannsóknir hafi sýnt að spara megi umtalsverðar fjárhæðir í lyfjakostnaði með reglubundnum mælingum á köfnunarefnisoxíði í útöndunarlofti og einnig eykur notkun þessara mælinga nákvæmni á greiningu bólgusjúkdóma í öndunarfærum.“
Ágúst hefur einnig fært lungnadeild Landspítala Fossvogi að gjöf nætursúrefnismettunarmæla sem verða notaðir til að fylgjast með súrefnismettun ef grunur vaknar um súrefnisskort að næturlagi hjá einstaklingum með lungnasjúkdóma.