Nox Medical ehf hefur fært Landspítala að gjöf 20 milljónir króna til kaupa á tækjabúnaði sem notaður er til greiningar á svefntruflunum. Gjöfin var afhent 20. júní 2013. Um leið undirrituðu spítalinn og Nox Medical samning um samstarf sín í milli á sviði rannsókna.
Nox Medical ehf er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í þróun á hátæknibúnaði, hugbúnaði og vélbúnaði sem notaður er við greiningu á svefnröskunum. Frá stofnun félagsins hefur Nox unnið með sérfræðingum Landspítala á sviði svefnrannsókna við þróun og prófanir þess búnaðar sem Nox framleiðir. Talið er að 10 til 20 prósent mannkyns glími við svefntruflanir og sérfræðingum ber saman um að veruleg tengsl sé á milli svefnraskana og alvarlegra sjúkdóma. s.s. hjarta- og æðasjúkdóma.
Búnaðurinn sem Landspítali hefur notað hingað til er kominn til ára sinna. Bilanatíðni er há og endurnýjunar þörf. Það rannsóknarstarf sem unnið er innan spítalans kallar á að notaður sé besti búnaður sem völ er á hverju sinni. Það er mat sérfræðinga Landspítala að búnaðurinn sem Nox framleiðir sé framúrskarandi og henti best til klínískra nota stofnunarinnar og rannsóknarvinnu.
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical:
„Við hjá Nox Medical erum meðvituð um hve Landspítala er þröngur stakkur skorinn hvað varðar fjármagn til tækjakaupa. Mörgum er kunnugt um hve metnaðarfullar vísindarannsóknir eru þar stundaðar undir forystu dr. Þórarins Gíslasonar. Rannsóknarstarf Landspítala er í fararbroddi á þessu sviði læknavísinda á heimsvísu. Samstarf Nox og sérfræðinga Landspítala er okkur ákaflega mikilvægt og hefur reynst okkur heilladrjúgt. Með þessu fjárframlagi til tækjakaupa viljum við leggja okkar af mörkum til að því verði viðhaldið og það styrkt enn frekar.“
Dr. Erna Sif Arnardóttir líffræðingur, Landspítala:
„Kæfisvefn er svefnsjúkdómur sem einkennist af háværum hrotum, öndunarhléum og dagsyfju. Alls hafa greinst um 8.000 einstaklingar með kæfisvefn á Íslandi á undanförnum árum og sofa tæplega 4.000 þeirra að staðaldri með svefnöndunartæki sem tryggir eðlilega öndun í svefni.“