Ný samanburðarrannsókn á heilsu þungaðra kvenna og nýfæddra barna (European Perinatal Health Report) sýnir að miðað við önnur lönd er áhætta meðgöngu og fæðingar lítil á Íslandi og auk þess mjög öruggt að fæðast hér þar sem burðarmáls-, ungbarna- og barnadauði er hvergi lægri. Dauðsföll og heilsubrestur á burðarmálstíma, þ.e. á meðgöngu, í fæðingu og á sængulegutíma, er ennþá vandamál í Evrópu.
Þriðjudaginn, 11. júní verða niðurstöður þessara rannsóknar kynntar í Hringsal á Landspítala Hringbraut. Kynningin hefst kl. 13:00.
Allir eru velkomnir.
Skýrslan á ensku
Vefur Euro-Peristat
Í skýrslu Europeristat eru teknir saman gæðavísar fyrir heilsu og heilbrigðisþjónustu við þungaðar konur og nýfædd börn þeirra. Í fyrsta sinn birtast nú einnig tölur frá Íslandi. Miðað við önnur Evrópulönd eru Norðurlöndin með góða heilsu- og heilbrigðisþjónustu á burðarmálstíma og er Ísland þar í fararbroddi.
Íslensku tölurnar eru áhugaverðar fyrir ýmsar sakir. Frjósemi (Total fertility rate) íslenskra kvenna er 2,2 sem er hæst í Evrópu og mun hærri en annars staðar á Norðurlöndunum. Hérlendis eru fleiri ungar mæður en þar (3% undir tvítugu) en hlutfallið er þó mun lægra en á Bretlandseyjum og löndum Austur-Evrópu. Tíðni fjölburafæðinga var fremur lág hér eða 14,3 á 1.000 fæðingar sem er svipað og annars staðar á Norðurlöndum, utan Danmerkur þar sem hún var 21/1.000. Tíðni keisaraskurða á Íslandi var lægst í Evrópu árið 2010 eða 14,8% en en hún er líka lág eða undir 20% annars staðar á Norðurlöndunum, utan Danmörku þar sem tíðnin var 22,1%. Í mörgum löndum Suður-Evrópu var tíðnin mjög há, hæst á Kýpur þar sem hún var 52,2% allra fæðinga. Tíðni burðamáls-, ungbarna- og barnadauða er einna lægst á Íslandi af öllum löndum Evrópu.