Ný stefna Landspítala um tóbaksvarnir var lögð fram í febrúar 2012. Settar hafa verið merkingar við nokkrar byggingar um tóbakslaust sjúkrahús, óleyfilega tóbaksnotkun og útisvæði þar sem má losa sig við tóbak. Fræðsla hefur verið efld og unnið er að því að hafa aðgengilegt fræðsluefni á vef Landspítala fyrir sjúklinga og starfsfólk og aðra sem til sjúkrahússins koma. Landspítali tók þátt í þróun upplýsingavefsins Frjáls.is og situr fagfólk sjúkrahússins í ýmsum nefndum og ráðum um tóbaksvarnir bæði á Íslandi og í öðrum löndum.
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, tók við verðlaununum fyrir hönd Landspítala en Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins, afhenti þau. Ólafur þakkaði Embætti landlæknis fyrir viðurkenninguna, góða samvinnu og hvatningu til þess að halda verkefninu áfram. Einnig öllum sem komið hafa að tóbaksvörnum á spítalanum í langan tíma fyrir vel unnin störf og þakkaði jafnframt góða samvinnu við Ráðgjöf í reykbindindi. Í tóbaksvarnarnefnd Landspítala eru Dóra Lúðvíksdóttir formaður, Rakel Valdimarsdóttir og Niels C. Nielsen.
Hvatningarverðlaunin voru grafíkmynd 37/75 eftir Karólínu Lárusdóttur, f. 1944,
„Magic Wand" (Töfrasproti), stærð 30cm x 40cm.
Á skilti sem er fast á myndinni stendur:„Á degi án tóbaks 2013 eru Landspítala veitt hvatningarverðlaun fyrir stefnumótun spítalans í tóbaksvörnum".
Myndinni verður komið fyrir á Landspítala Fossvogi.