Landspítali tekur þátt í umfangsmikilli alþjóðlegri rannsókn sem felur í sér þróun og prófun á nýjum hugbúnaði (tölvuforriti) sem hefur fengið heitið SENATOR. Hugbúnaðurinn metur og gefur ráðleggingar um lyfjameðferð og aðrar meðferðarleiðir hjá eldri einstaklingum.
SENATOR er skammstöfun á heiti verkefnisins (Development and clinical trials of a new Software ENgine for the Assessment & optimization of drug and non-drug Therapy in Older peRsons). Vísindastyrkur frá 7. rammáætlun Evrópusambandsins er bakhjarl verkefnisins.
Styrkupphæðin sem veitt er í verkefnið er samtals 6 milljónir evra, jafnvirði tæplega eins milljarðs íslenskra króna.
Á vef SENATOR eru m.a. upplýsingar um undirbúning, framkvæmd og þau rannsóknarsetur sem taka þátt í rannsókninni.
Af hverju SENATOR?
Eldri einstaklingum með langvinna sjúkdóma fjölgar hratt í löndum Evrópu. Samhliða fjölgar ábendingum fyrir lyfjameðferð. Lyfjatengd vandamál eru orðin tíðari og alvarlegri og tengjast m.a. lífeðlisfræðilegum breytingum tengdar öldrun, fjölda langvinnra sjúkdóma, fjöllyfjanotkun og óviðeigandi lyfjameðferð. Aukaverkanir lyfja og lyfjatengd atvik auka líkur á heilsutjóni, lengri legutíma á sjúkrahúsi og hærri kostnaði. Vísbendingar eru um að nýta mætti betur meðferðarúrræði eins og sjúkra- og iðjuþjálfun, næringarráðgjöf og sálfræðiþjónustu í meðferð langvinnra sjúkdóma. Víða vantar upp á að sú þekking og þjálfun sem öldrunarlækningar byggjast á nýtist sem meðferðarúrræði þegar um aldraða eða fjölveika einstaklinga er að ræða.Gagnsemi SENATOR hugbúnaðarkerfisins verður metin í sex löndum Evrópu. Í heild verða 1.800 sjúklingar þátttakendur í rannsókninni. Á þriggja ára tímabili verða 300 sjúklingar á Landspítala valdir til þátttöku. Í hópnum sem verður skoðaður í rannsókninnni eru sjúklingar 65 ára og eldri með þrjá eða fleiri langvinna sjúkdóma sem leggjast inn brátt á aðrar deildir en öldrunarlækningadeildir. Hugbúnaðurinn metur ábendingar lyfjameðferðar, greinir og ráðleggur lyfjameðferð með hættu á aukaverkunum í huga og bendir á hagkvæmasta lyfjaval auk annarra meðferðaúrræða. SENATOR hefur einstaklingsmiðaða og gagnreynda meðferð að leiðarljósi.
Í rannsókninni verður metið hvort SENATOR hugbúnaðurinn geti dregið úr aukaverkunum lyfjameðferðar hjá eldri sjúklingum og aukið hagkvæmni meðferðar. Hugbúnaðurinn kemur með tillögu um viðeigandi einstaklingsbundna lyfjameðferð með hliðsjón af hættu á aukaverkunum og hugsanlega einnig ráðleggingar um aðrar viðurkenndar meðferðarleiðir sem byggðar eru á gagnreyndri þekkingu. Áætlað er að verkefnið taki 5 ár.
Fjölþjóðleg rannsókn
Auk Landspítala eru þátttakendur í SENATOR rannsókninni háskólasjúkrahús í Cork, Madrid, Aberdeen, Ghent og Ancona. Aðrir samstarfsaðilar eru Helix Health í Dublin, Háskólinn í East Anglia, Háskóli Íslands, Háskólinn í Suður-Danmörku og fyrirtækin GABO:mi í Munchen og Clininfo í Frakklandi. Rannsókninni er stýrt frá Cork á Írlandi og er aðalstjórnandi dr. Denis Mahony.
Rannsakendur á Íslandi
Aðalsteinn Guðmundsson öldrunarlæknir er aðalrannsakandi SENATORS á Landspítala. Meðrannsakendur eru Pétur S. Gunnarsson lyfjafræðingur, Ólafur Samúelsson öldrunarlæknir, María Heimisdóttir læknir og Birna Björg Másdóttir læknir. Ástrós Sverrisdóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin verkefnastjóri rannsóknarinnar á Landspítala. Anna Birna Almarsdóttir lyfjafræðingur er aðalrannsakandi fyrir hönd Háskóla Íslands og Háskólans í Óðinsvéum.