1. Gísli H. Sigurðsson, yfirlæknir og prófessor á skurðlækningasviði
Gísli er öflugur foringi í sinni fræðigrein; kennari og vísindamaður sem á ríkan þátt í því að svæfinga- og gjörgæsludeildin hefur vaxið og dafnað á síðustu árum og þróast sem öflug og nútímaleg þjónustueining. Deildin nýtur mikilla vinsælda sem námsvettvangur meðal læknanema og unglækna en Gísli gegnir stóru hlutverki í skipulagi kennslu og þjálfunar þeirra og í kennslunni sjálfri.
2. Guðný Sigríður Kristjánsdóttir, ræstingastjóri á rekstrarsviði
Guðný er alltaf boðin og búin til þjónustu við starfsfólk og starfsemi. Hún hefur verið óþreytandi að upplýsa og aðstoða starfsfólk í þeim miklu sýkingum og sótthreinsunarstörfum sem ganga reglulega yfir spítalann. Guðný er ólöt við að liðka fyrir hvers kyns verkum og beiðnum tengdum starfsemi rekstrarsviðs þó þau tilheyri ekki hennar málaflokki. Fossvogur hefur verið meginstarfsstöð Guðnýjar og honum hefur hún hefur sinnt af mikilli natni og ósérhlífni langt umfram það sem skyldan býður.
3. Guðrún Magney Halldórsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri göngudeildar A3 á lyflækningasviði
Guðrún hefur til langs tíma stutt við gildi LSH. Hún stýrir flókinni starfsemi af miklum styrk og með góðu skipulagi. Hún er traust, áhugasöm, lipur í samskiptum, lausnamiðuð og hugsar hlutina alltaf út frá sjúklingnum. Hún teygir sig lengra en flestir til að hlutirnir gangi vel. Guðrún hefur undirbúið og séð um svokölluð stöðvapróf læknanema sem eru hluti af klínískum prófum í lyflæknisfræði, einum stærstu prófum sem haldin eru á spítalanum. Það gerir hún snilldarvel eins og allt annað.
4. Helga Rósa Hansdóttir, sjúkraliði á vökudeild á kvenna- og barnasviði
Helga hefur starfað sem sjúkraliði á vökudeild í 25 ár samfellt. Hún sinnir störfum sínum af fagmennsku og öryggi og ber mikla umhyggju fyrir nýburum og foreldrum þeirra. Hún hefur tekið þátt í mörgum mikilvægum verkefnum framþróunar og stýrir meðal annars hjúkrunarvörulager deildarinnar með öflugum hætti. Helga er vel liðin af öllum, hún veitir trausta leiðsögn og er góð fyrirmynd í starfi. Helga er sá starfsmaður sem foreldrar barnanna muna lengst eftir.
5. Hildur Harðardóttir, yfirlæknir á kvenna- og barnasviði
Hildur er afburða læknir sem er vakin og sofin yfir velferð skjólstæðinga sinna og yfir velferð Kvennadeildar. Hún er alltaf að hugsa nýjar leiðir til að afla sviðinu fjár. Það er henni að þakka að styrktarfélagið Líf er til. Svo er hún líka svo skemmtileg.
6. Hilmar Thor Bjarnason, verkefnastjóri á fíknigeðdeild 33A á geðsviði
Hilmar er meðlimur varnarteymis á geðsviði. Hann er mörgum góðum kostum gæddur sem njóta sín vel, bæði í teyminu og í öðrum störfum. Hann er duglegur, traustur og öruggur og leggur metnað sinn í að hjálpa fólki sem glímir við geðræn vandamál. Þess vegna er hann heiðraður.
7. Ludvig Carl Hilmarsson, öryggisvörður á rekstrarsviði
Ludvig Carl er sérstaklega þjónustulundaður, hjálpsamur og jákvæður. Hann þekkir mjög vel til allra verka og leggur sig fram um að leysa fljótt og vel úr öllu sem hann er beðinn um. Samstarfsmenn og aðrir starfsmenn spítalans, sem átt hafa við hann samskipti, bera honum ætíð söguna vel.
8. María Ragnarsdóttir, sjúkraþjálfari á lyflækningasviði
María er rannsóknarsjúkraþjálfari á LSH. Hún hefur unnið ötullega að vísindalegum rannsóknum og kynnt þær á ráðstefnum víða um heim. Hún hefur skrifað ótal greinar sem birst hafa í innlendum og erlendum fagritum. María hefur þróað og fengið einkaleyfi á tæki sem mælir öndunarhreyfingar. Hún er nú að þróa hryggþrýsti og hreyfingamæli fyrir hrygg. María er brautryðjandi, góð fyrirmynd og fagmaður fram í fingurgóma.
9. Sergia Basalan Divinagracia, starfsmaður á bráðasviði
Sergia er frábær starfsmaður sem sinnir starfinu sínu af alúð og umhyggju. Hún er alltaf að og alltaf boðin og búin til allra góðra verka. Auk þess hefur hún glöggt auga fyrir umhverfi sínu og leggur metnað í að hafa allt í góðu lagi. Hún er yndislega hlý og góð og næsta víst að deildin væri í rúst án hennar.
10. Sigríður Ástvaldsdóttir, heilbrigðisritari á mannauðsdeild á skrifstofu forstjóra
Sigríður er lipur, jákvæð og lausnamiðuð. Hún hefur mikla þjónustulund og leggur metnað sinn í að leysa úr hvers manns vanda. Hún sýnir öllum virðingu og er alltaf brosandi og í góðu skapi.
11. Sigríður Guðmundsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á endurhæfingadeild R2 á lyflækningasviði
Sigríður er frábær deildarstjóri sem hvetur starfsfólk sitt til dáða en lætur einnig í sér heyra ef eitthvað má betur fara. Hún stuðlar að góðum starfsanda á vinnustað og er sterkur málsvari sjúklinga.Nemar eru mjög ánægðir með hana. Hún stendur með sínu fólki og tekur strax á málum. Hún er drífandi og skemmtileg – hrein og bein.
12. Theódóra Gísladóttir, lífeindafræðingur á rannsóknarsviði
Theódóra er mjög fær lífeindafræðingur sem vinnur frábært starf. Hún er forkur dugleg og ósérhlífin, gengur í hvert það verk sem vinna þarf. Hún er óvenju framtakssamur og afkastamikilll starfsmaður sem sér lausnir þar sem aðrir sjá vandamál. Theódóra hefur sinnt starfi gæðastjóra um nokkurt skeið og er framlag hennar ómetanlegur þáttur í undirbúningi faggildingar. Það er allt af viti sem hún segir.