Kynlíf og lífsgæði í veikindum til umfjöllunar 8. til 12. apríl
"Kynlíf og lífsgæði - vika kynlífs á Landspítala" verður dagana 8. til 12. apríl 2013. Þessi fræðsluvika er liður í verkefninu "kynlíf og veikindi" sem hófst á Landspítala 1. mars og er framhald verkefnisins um kynlíf og krabbamein sem staðið hefur síðastliðin tvö ár. Því lauk um áramótin. Markmið verkefnisins er tvíþætt, annars vegar að fræða starfsfólk um kynheilbrigði og kynlíf og kenna leiðir til að opna þá umræðu meðal sjúklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra, hins vegar að sjúklingum og aðstandendum standi til boða þjónusta kynlífsráðagjafa. Jóna Ingibjörg Jónsdóttir var ráðin kynlífsráðgjafi frá 1. mars síðastliðnum.
Lyfjafyrirtækin Sanofi, Roche og Janssen greiða laun klínísks kynfræðings til að vinna að verkefninu næstu tvö árin. Hlutverk hans er að sinna ráðgjöf til sjúklinga og aðstandenda og kennslu og fræðslu fyrir starfsfólk. Markhópar verkefnisins verða, auk krabbameinssjúklinga, sjúklingar með MS, nýrnasjúkdóma, ígrætt líffæri, sykursýki og gigtarsjúkdóma en öðrum sérgreinum, bæði fagfólki og sjúklingahópum á LSH, verður einnig sinnt.
Kynlíf og lífgæði - vika kynlífs á Landspítala 8. til 12. apríl 2013