Stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur afhenti á aðalfundi sínum 11. mars 2013 fé til að styrkja kaup á tveimur tækjum til krabbameinslækninga á Landspítala. Hvor gjöf nam einni milljón króna. Annað tækið er línuhraðall til geislameðferðar krabbameina. Slíkt tæki hefur verið notað á spítalanum í áratugi en orðið brýnt að endurnýja það. Hitt tækið er nýrra, svonefndur aðgerðarþjarkur. Það tengist skurðlækningum krabbameina og hefur ekki verið til hér á landi.
Stjórn Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur áhyggjur af því að samdráttur síðustu ára hafi bitnað á þjónustu við krabbameinssjúklinga. Þess vegna ákvað stjórn félagsins að leggja sitt af mörkum til að bæta tækjakost sem nota þarf við krabbameinsmeðferð á Landspítala. Góðir hálsar, Ristilfélagið og Stuðningshópur kvenna með krabbamein í eggjastokkum standa einnig að gjöfunum en hóparnir starfa náið með félaginu.
.