Á deildinni liggja sjúklingar eftir oft stórar skurðaðgerðir eða áverka á brjóstholi. Eftir aðgerð þurfa menn að leggja hart að sér til að verða sjálfbjarga og komast út í lífið aftur. Afþreying beinir huganum frá erfiðleikum dagsins og koma sjónvörpin þar að góðum notum.
Sjónvarpstækin sem fyrir voru á deildinni voru komin mjög til ára sinna og mörg á síðasta snúningi eða alveg ónýt. Endurnýjunar var þörf og þar kom Lionklúbburinn Njörður til bjargar. Sjónvarpstækið í setustofunni er 42 tommu, tækin 18 á sjúkrastofunum eru 32 tommu og var komið fyrir andspænis rúmunum. Ákveðið var að setja þar ekki venjuleg heimilissjónvarpstæki heldur tæki sem eru til dæmis notuð á hótelherbergjum. Hver sjúklingur hefur stjórn á sínu sjónvarpstæki og engin truflun er af hljóði frá öðru sjónvarpstæki á sjúkrastofunni vegna þess að það fer um innanhússhljóðkerfi spítalans.
Hópur félagsmanna í Lionsklúbbnum Nirði afhenti gjöfina formlega á hjarta- og lungnaskurðlækningadeild 12E mánudaginn 25. febrúar 2013 og var kært þakkaður höfðingsskapurinn. Heildarverðmæti tækjanna er nærri tveimur milljónum króna.