Thorvaldsensfélagið afhenti föstudaginn 1. mars 2013 Endurhæfingu LR styrk að upphæð 3,5 milljónir til uppbyggingar á nýju úrræði, tónlistarverkefninu „Hljómafli“.
Endurhæfing LR er deild á geðsviði Landspítala sem er sérhæfð meðferðar- og endurhæfingardeild fyrir ungt fólk á aldrinum 18-25 ára með byrjandi geðrofssjúkdóma. Umsvif deildarinnar hafa vaxið mikið á undanförnum tveimur árum en boðið er upp á fjölbreytt meðferðarform og virkni. Þetta nýjasta úrræði starfseminnar, Hljómafl, er unnið í samvinnu við forsvarsmenn breska tónlistarverkefnisins „Key Changes“. Markmið Hljómafls er að gefa þjónustuþegum Endurhæfingar LR tækifæri til að vinna með eigin styrkleika gegnum tónlistarsköpun á spennandi, krefjandi og skemmtilegan hátt. Boðið verður upp á námskeið og þjálfun í lagasmíðum, textagerð, útsetningum, upptökum, sviðsframkomu og fleiru. Tónlistarverkefnið Hljómafl, ásamt öðrum þáttum í starfsemi Endurhæfingar LR, verður staðsett í Víðihlíð sem stendur við Holtagarða.
Thorvaldsensfélagið hefur sýnt starfseminni sérstakan velvilja og hefur veitt Endurhæfingu LR styrk fyrir öllum þeim hljóðfærum og tækjakosti sem þarf til að starfrækja verkefnið Hljómafl. Þessi styrkur Thorvaldsensfélagsins er mikil lyftistöng fyrir alla starfsemi Endurhæfingar LR og tryggir þar með aukna fjölbreytni í endurhæfingarúrræðum fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma.
Thorvaldsensfélagið styrkir reglulega ýmis þörf og brýn málefni en það aflar fjár meðal annars með verslun sinni í Austurstræti sem er Thorvaldsensbazarinn og jólakorta- og jólamerkjasölu.