Frá sýklafræðideild Landspítala:
Nefkokssýnum í almennar ræktanir verður hafnað frá 1. mars 2013 nema að á rannsóknarbeiðni komi skýrt fram að um viðurkennda ábendingu sé að ræða.
Fram að þessu hefur sýklafræðideildin tekið við öllum nefkokssýnum sem hafa borist henni til almennrar ræktunar. Gildi almennra nefkoksræktana er mjög takmarkað og víðast mælt með því að nota nefkoksstrok eingöngu í leit að ákveðnum bakteríum. Kostnaður við þessar rannsóknir hefur aukist talsvert á undanförnum misserum.
Ábendingar fyrir ræktanir nefkoksstroka:
1. Leit að Bordetella pertussis hjá sjúklingum grunuðum um kíghósta.
2. Leit að Neisseria meningitidis hjá sjúklingum með heilahimnubólgu eða hjá einstaklingum sem hafa verið í nánasta umhverfi sjúklings með heilahimnubólgu.
3. Leit að fjölónæmum pneumókokkum hjá sjúklingum með bráða miðeyrnabólgu sem ekki hefur lagast við hefðbundna sýklalyfjameðferð.
4. Leit að Corynebacterium diphtheriae hjá einstaklingi grunuðum um barnaveiki eða einstaklingum sem hafa umgengist einstakling með barnaveiki.
Vegna þess að Streptococcus pneumoniae, Haemophilus influenzae og Moraxella catarrhalis eru algengir í eðlilegu örveruflóru nefkoksins er ekkert gagn af nefkoksræktunum til greiningar á sýkingum sem eru gjarnan af völdum þessara sýkla (sinusitis, bráð miðeyrnabólga og lungnabólga).
Öll sýni sem koma á deildina eru skráð en ekki er innheimt fyrir þau.
Strokpinninn verður geymdur í nokkra daga til að gefa lækni færi á að hafa samband og tilgreina rétta ábendingu.