|
Elín J. G. Hafsteinsdóttir verður deildarstjóri gæða- og sýkingavarnadeildar. Deildin hefur meðal annars það hlutverk að stuðla að árangursríku gæða- og sýkingarvarnastarfi á spítalanum í samvinnu við aðrar deildir spítalans. Deildin mun leggja áherslu á verkefni sem auka þekkingu á gæðum þjónustu og öryggi sjúklinga og leiða til umbóta í þágu sjúklinga. Markviss ritstjórn sjúkraskrár í þágu sjúklinga verður einnig mikilvægt verkefni deildarinnar. |
|
Magnús Gottfreðsson verður yfirlæknir vísindadeildar. Meðal verkefna deildarinnar er yfirsýn yfir og samræming vísindastarfs á spítalanum. Deildin veitir vísindamönnum stuðning og ráðgjöf og sér um starfsemi vísindaráðs Landspítala og siðanefndar. Deildin hefur yfirumsjón með umsóknum um vísindarannsóknir og skráningu þeirra og leiðir samstarf Landspítala við Háskóla Íslands og aðrar stofnanir og fyrirtæki hvað vísindastarf varðar. Heilbrigðisvísindabókasafn LSH og klínískt rannsóknarsetur starfa einnig innan vísindadeildar. Magnús hefur mikla reynslu af vísindastörfum en hann lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 1999 og hefur verið virkur vísindamaður undanfarin ár, bæði hvað varðar birtingu greina, leiðsögn meistara- og doktorsnema og ýmis nefnda- og trúnaðarstörf er varða vísindastarfsemi. Magnús hefur einnig reynslu af stjórnunarstörfum og víðtæka klíníska reynslu sem smitsjúkdómalæknir. |
Ráðið í tvær stöður stjórnenda deilda á vísinda- og þróunarsviði
Elín J. G. Hafsteinsdóttir og Magnús Gottfreðsson hafa verið ráðin stjórnendur á hinu nýja vísinda- og þróunarsviði Landspítala sem er undir stjórn framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga. Elín er ráðin tímabundið til 1. september 2013 og Magnús til 5 ára frá 1. mars 2013. Áður hafði verið ráðið í stöður stjórnenda flæðisdeildar og menntadeildar á sviðinu.