Útbúnir hafa verið stuttir kvikmyndaþættir með fræðsluefni fyrir börn og ungmenni með sykursýki og aðstandendur þeirra. Þetta eru fjórtán tveggja mínútna langir þættir sem fjalla um rétt viðbrögð við ýmsum atvikum sem upp kunna að koma varðandi sykursýki. Frumsýning verður í Hringsal á Landspítala Hringbraut miðvikudaginn 13. febrúar 2013, kl. 17:00. Allir eru velkomnir.
Meðferð sykursýki er flókin og vandasöm. Fjölskyldan, vinir, starfsfólk skóla og aðrir í nærumhverfi einstaklingsins þurfa að vera meðvituð um sjúkdóminn og rétt viðbrögð við vanda sem upp getur komið. Í erli dagsins vilja ýmis mikilvæg atriði gleymast og því er gott að geta leitað sér upplýsinga á skjótan og þægilegan hátt.
Þeir sem standa að gerð þessara þátta nýta sér nútíma tækni til að koma veigamiklum upplýsingum til þeirra sem á þurfa að halda. Hver sem er getur nálgast þættina á Netinu, t.d. á Youtube.com og öðrum þess háttar síðum og á vefjum Barnaspítala Hringsins, Dropans og Inter Medica. Fræðsluefninu er ætlað að hjálpa fólki að bregðast rétt við aðstæðum en er ekki ætlað sem ítarefni. Við aðstæður þar sem bregðast verður hratt við getur verið erfitt að nýta sér ítarefni eða kennslu sem aflað var fyrir löngu. Efni af þessu tagi er nýjung hér á landi og vonast þeir sem að verkefninu standa til þess að það verði þörf viðbót við heilbrigðisþjónustu einstaklinga með sykursýki á Íslandi.
Umgjörð þáttanna eru sumarbúðir í Svíþjóð. Í þeirri ferð sigldu um 40 ungmenni á seglskútu með vesturströnd Svíþjóðar áleiðis til Gautaborgar. Á meðal efnis í þáttaröðinni má til dæmis finna hvernig bregðast skuli við sykurfalli, of háum blóðsykri, veikindum og gubbupest. Einnig eru almennar upplýsingar fyrir almenning um sykursýki. Myndefninu er ætlað að gefa góða hugmynd um rétt viðbrögð og geta nýst meðal annars samnemendum, félögum, kennurum og íþróttaþjálfurum. Hægt verður að hlaða myndskeiðunum niður í símann eða fara á Netið og fá réttar upplýsingar á skömmum tíma.
Þeir sem standa að gerð þessara kvikmyndaþátta eru Barnaspítali Hringsins og Inter Medica, einnig kemur að verkefninu Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki. Helstu styrktaraðili eru Thorvaldsensfélagið og Inter Medica. Í sérfræðingahópi er Ragnar Bjarnason yfirlæknir, Brynja Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur sem vinnur jafnframt að rannsókn tengdri verkefninu, Elísabet Konráðsdóttir, sérfræðingur í barnahjúkrun, og Júlíus Arnarson framkvæmdarstjóri Inter Medica. Þulir eru Páll Óskar Hjálmtýsson og Þórunn Erna Clausen. Þór Elís Pálsson kvikmyndaleikstjóri sá um gerð þáttanna.