Markmið með samningnum er að stuðla að bættri þjónustu við aldraða með skertar lífslíkur þannig að fleiri sjúklingar njóti viðeigandi meðferðar og umönnunar við lok lífs í rólegu og friðsælu umhverfi á hjúkrunarheimili.
Samstarf um líknarþjónustuna nær til einstaklinga sem liggja á deildum Landspítala hverju sinni og hafa fengið viðeigandi meðferð, umönnun og stuðning. Þeir teljist ekki vera í þörf fyrir sérhæfða meðferð á líknardeild, ekki verði séð fram á að þeir þurfi ástands síns vegna að liggja á sjúkrahúsinu og hægt sé að mæta þörfum þeirra á hjúkrunarheimili. Áður en komi til flutnings á Eir eða Skógarbæ hafi einkennameðferð á LSH skilað árangri þannig að sjúklingnum líði betur og ástandið sé stöðugt. Flutningurinn á Eir eða Skógarbæ sé jákvæður kostur fyrir sjúklinginn.
Líknarráðgjafateymi Landspítala metur sjúklingana áður en þeir fara á biðlista fyrir Eir eða Skógarbæ en um verður að ræða tvö til fjögur pláss á hvorum stað.
Eir og Skógarbær vinna eftir hugmyndafræði líknarmeðferðar um þarfir einstaklingsins og fjölskyldu hans. Áhersla er lögð á lífsgæði og litið á dauðann sem eðlileg þáttaskil. Landspítali skuldbindur sig til að styðja starfsfólkið á Eir og í Skógarbæ með sérhæfðri fræðslu áður en skjólstæðingar koma frá sjúkrahúsinu. Auk þess getur starfsfólkið á hjúkrunarheimilunum leitað ráðgjafar frá líknarráðgjafateymi LSH og heimahlynningu LSH.
Fyrstu sjúklingarnir verða teknir inn á Eir og Skógarbæ í febrúar 2013 samkvæmt þessum samningi.
Ljósmynd: Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir; Vilhelmína Haraldsdóttir framkvæmdastjóri lyflækningasviðs; Birna Kr. Svavarsdóttir, hjúkrunarforstjóri Eirar; Arndís Jónsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun í líknarráðgjafateymi; Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala; Svandís Íris Hálfdánardóttir, sérfræðingur í hjúkrun; Kristín Högnadóttir, fræðslustjóri Eirar; Dóra Halldórsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á líknardeild í Kópavogi; Ingibjörg Hjaltadóttir, hjúkrunarfræðingur á lyflækningasviði; Helga Tryggvadóttir, hjúkrunardeildarstjóri í Skógarbæ; Jónbjörg Sigurjónsdóttir, hjúkrunarforstjóri í Skógarbæ; Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur.