Vilborg Arna gekk einsömul á suðurpólinn fyrst Íslendinga. Áheit vegna ferðarinnar renna til kvenlækningadeildar 12A á Landspítala. Ferðin frá Hercules Inlet á syðsta punkt jarðar tók 60 daga og á hverjum degi gekk hún um 19 kílómetra að meðaltali. Hún dró á eftir sér tvo sleða með nauðsynlegum búnaði til fararinnar sem vó í byrjun rúmlega 100 kíló. Aðstæður til pólgöngu voru á köflum erfiðar, nýsnævi, mikill kuldi, lítið skyggni og hvassviðri sem myndaði háa rifskafla. Vilborg þurfti líka að takast á við magakveisu og væg kalsár á lærum. Hún bar sig þó vel og sýndi ótrúlegt þrek, hugrekki, áræðni og jákvæðni.
Í fyrirlestrinum, sem er á vegum mannauðsdeildar Landspítala, segir Vilborg frá ferðinni, áskorununum sem urðu á leið hennar og hvernig hún tókst á við þær með gildin sín að leiðarljósi.
Allir eru velkomnir á fyrirlesturinn.