Viðbragðsstjórn Landspítala kom saman nú í hádeginu 1. febrúar 2013 til að meta stöðuna.
Flensan er nú í hámarki samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnarlækni.
Ástandið á spítalanum er viðráðanlegt eins og stendur og ákveðið var að aflétta óvissustigi.
Aðsókn að spítalanum hefur verið minni undanfarna daga en vant er og fleiri rúm eru opin auk þess sem víða hefur verið bætt í mönnun. Áfram er þó mikið að gera og enn eru 28 sjúklingar í einangrun.
Um helgina verður áfram brýnt að vinna að því að útskrifa þá sjúklinga sem eru reiðubúnir til útskriftar svo hægt verði að hefja undirbúning að því að kalla fólk inn af biðlistum í valstarfsemi í næstu viku.
Áfram er mælst til þess að aðstandendur takmarki heimsóknir á spítalann á meðan flensan er í hámarki.
Enginn fundur er boðaður í viðbragðsstjórn en hún verður kölluð saman ef ástæða þykir til.
Viðbragðsstjórn þakkar öllu starfsfólki Landspíta fyrir sitt framlag sem hefur gert það mögulegt að halda starfseminni gangandi við þessar erfiðu aðstæður.
Fyrir hönd viðbragðsstjórnar
Ólafur Baldursson Sigríður Gunnarsdóttir
framkvæmdastjóri lækninga framkvæmdastjóri hjúkrunar