Tveir stjórnendur nýrra deilda á vísinda- og þróunarsviði
Dagbjört Þyri Þorvarðardóttir og Hrund S. Thorsteinsson hafa verið ráðnar stjórnendur á hinu nýja vísinda- og þróunarsviði Landspítala frá og með 1. febrúar 2013 til 5 ára. Áfram er unnið er að ráðningu stjórnenda gæða- og sýkingavarnardeildar og vísindadeildar.
|
Dagbjört Þyri Þorvarðardóttir verður deildarstjóri flæðisdeildar. Deildin hefur m.a. það hlutverk að stuðla að því að dvöl sjúklinga á sjúkrahúsinu sé skilvirk hvað varðar aðkomu þeirra að sjúkrahúsinu, flutning milli deilda og útskriftir. Deildin mun leggja áherslu á að efla samvinnu deilda og fagmannleg samskipti í þágu sjúklinga, auk þess að tryggja árangursrík samskipti við aðrar heilbrigðisstofnanir varðandi flutninga sjúklinga milli stofnana og dvalartíma.
Dagbjört Þyri hefur margþætta reynslu af störfum innan heilbrigðiskerfisins, m.a. sem farsæll stjórnandi. Hún hefur einnig mikla reynslu af starfi er varðar flæði sjúklinga á sjúkrahúsinu og málefni tengd því.
|
|
Hrund S. Thorsteinsson verður deildarstjóri menntadeildar. Deildin hefur m.a. það hlutverk að stuðla að skilvirku skipulagi grunnnáms, framhaldsnáms og símenntunar heilbrigðisstétta á sjúkrahúsinu. Deildin mun einnig leggja áherslu á verkefni sem hvetja til fagmannlegra vinnubragða, sérstaklega er varðar þverfaglega samvinnu, samskipti og skráningu upplýsinga í þágu sjúklinga.
Hrund á að baki langa reynslu af störfum í heilbrigðiskerfinu, m.a. sem farsæll stjórnandi. Hún hefur mikla reynslu af störfum er varða menntun heilbrigðisstétta á spítalanum og tengdum málefnum.
|