Fyrirhuguð er á Íslandi viðamikil rannsókn á áhrifum bólusetninga gegn pneumókokkum. Rannsóknarhópur á Landspítala og við Háskóla Íslands annast rannsóknina sem beinist að útbreiðslu bakteríunnar og breytingum á henni, áhrifum á sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi, nákvæmum hjúpgreiningum, stofngreiningum og fleiru. Fyrirtækið GlaxoSmithKline (GSK) styrkir verkefnið með einni milljón evra og voru samningar um rannsóknarstyrkinn undirritaðir 24. janúar 2013.
Pneumókokkar eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum sýkingum svo sem blóðsýkingum, heilahimnubólgu, lungnabólgu eða beina- og liðasýkingum hjá börnum og fullorðnum. Talið er að allt að ein milljón barna látist ár hvert í heiminum vegna sýkinga af völdum pneumókokka. Þeir valda einnig ýmsum öðrum sýkingum svo sem eyrnabólgum og skútabólgum. Bakterían er því verulegur skaðvaldur fyrir menn.
Í nokkur ár hefur verið til bóluefni gegn pneumókokkum sem virkar ekki eingöngu á fullorðna einstaklinga með þroskað ónæmiskerfi heldur einnig börn. Erlendar rannsóknir staðfesta að bóluefnið virkar vel og fækkar verulega sýkingum. Nágrannaþjóðir okkar hafa bólusett börn gegn pneumókokkum í nokkur ár. Frá árinu 2011 hafa börn á Íslandi verið bólusett gegn pneumókokkum á fyrsta aldursári eins og í nágrannalöndunum. Vonast er til þess að í kjölfarið fækki pneumókokkasýkingum og um leið dragi úr sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi.
Rannsóknarhópur á Landspítala og við Háskóla Íslands hefur skipulagt umfangsmikla rannsókn til að meta áhrif pneumókokkabólusetningarinnar á Íslandi. Þótt góðar rannsóknir á árangri bólusetninganna hafi verið gerðar erlendis er á Íslandi hægt að rannsaka nánar ákveðin atriði af mikilli nákvæmni. Rannsóknin mun standa í um þrjú ár og er áætlaður kostnaður rúmlega ein milljón evra eða um 170 milljónir króna. Rannsóknarstyrkurinn frá GlaxoSmithKline nemur þeirri upphæð og er með stærstu einstöku styrkjum til rannsóknarhóps innan Landspítala eða Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á undanförnum árum.
Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði og yfirlæknir og Helga Erlendsdóttir, lífeindafræðingur og klínískur prófessor við sýklafræðideild Landspítala, eru meðal margra öflugra vísindamanna á Landspítala og við Háskóla Íslands sem á undanförnum árum hafa rannsakað ýmsa þætti pneumókokkasýkinga á Íslandi. Þau leiða rannsóknarhópinn. Forsenda rannsóknarstyrksins er m.a. gagnasöfnun og vísindavinna sem rannsóknarhópurinn og samstarfsfólk hefur stundað undanfarin ár.
GlaxoSmithKline er meðal fremstu frumlyfja- og heilsufyrirtækja í heimi. Fyrirtækið telur rannsóknina falla vel að markmiði sínu sem er að bæta lífsgæði fólks með því að gera því kleift að áorka meiru, líða betur og lifa lengur.