Mats er landsmönnum að góðu kunnur fyrir loftljósmyndir sínar af landslagi og átthögum. Myndirnar eiga sinn fasta stað á fjölmörgum íslenskum heimilum og er óhætt að segja að hann hafi markað sér sérstöðu með þeim á íslenskum ljósmyndamarkaði og átt þar sviðið um áralangt skeið.
Mats Wibe Lund fæddist í Noregi 28. febrúar 1937. Hann er sérhæfður í loftljósmyndun sem hann lærði í Konunglega norska flughernum, í Frakklandi og Þýskalandi.
Mats heimsótti landið fyrst sumarið 1954 er hann vann við uppgröft í Skálholti. Hann heillaðist af landi og þjóð og hefur verið búsettur hér síðan 1966. Mats er enn að og fer í flugferðir til að ljósmynda hvenær sem veður leyfir.
Myndirnar eru mikilvægt framlag til íslenskrar ljósmyndasögu. Þær eru teknar ýmist á 6x6 Hasselbladmyndavél eða Pentax 67 og einkennast af formnæmi og óskeikulli myndbyggingu þar sem tæknikunnátta og listræn gæði haldast í hendur.
Mats Wibe Lund hefur tekið þátt í mörgum sýningum bæði hér og erlendis og haldið margar einkasýningar á Íslandi.
Mats Wibe Lund gefur ljósmyndir til Landakots
Ljósmyndarinn Mats Wibe Lund hefur gefið til Landakots landslagsmyndir sem eru teknar á árunum 1972 til1999. Þeim hefur verið komið fyrir í kjallara og á 3. og 4. hæð á Landakoti.